Næst síðasti dagur

Næst síðasti dagur í Hvalfirði. Annað kvöld verð ég aftur kominn til Danmerkur eftir mánaðarlanga dvöl í Íslandi. En nú rignir hér í firðinum og það er hávaðarok, svo mikið rok að vindgólið er svo hátt að ég þarf að hækka í úrvarpinu til að heyra raddir útvarpsfólksins. Hvalfjörðurinn hefur ekki fyrr í sumar verið svona úfinn og hræðilegur.

Áðan gekk ég af stað út í regnið með ruslapoka til að setja í grænu ruslagámana hér niður við þjóðveg 47. Þetta eru nákvæmlega 700 metra gönguleið – ég hef svo oft hlaupið þessa leið með hlaupaúrið sem mælir vegalengdir – og mér tókst á þessum stutta spöl að verða hundblautur, gersamlega niðurrigndur. Enginn virðist hætta sér út í þetta veður og ég hef varla séð bíl keyra eftir þjóðveginum allan morguninn.

Um daginn var ég á tjaldferðalagi og kom við í Bókakaffinu á Selfossi og þar tókst mér að finna Önnu Karenínu í íslenskri þýðingu Karls Ísfelds og Magnúsar Ásgeirssonar (stórkostleg bók sem ég hef bara lesið á dönsku) og Stríð og frið í kilju og bókina Farþegann eftir hinn þýska Ulrich Alexander Boschwitz sem Dimma gaf út um daginn. Frábær fengur.

 

Fengurinn frá bókakaffinu á Selfossi

 

Á föstudaginn fór ég í bæjarferð bæði til að skila lánsbíl og til að hitta fólk sem ég átti erindi við. Hitt fólk:

Eftir að hafa látið Sölva aftur hafa bílinn fór ég á Kaffi Vest á stefnumót við Jón Karl Helgason, minn gamla samstarfsmann, þar sem við gáfum hvor öðrum skýrslu og sumarstúss okkar. Þaðan fór ég á skrifstofu gamla forlagsins, Bjarts, til að hitta Pétur Má og undirskrifa samning sem við gerðum. Á skrifstofunni hitti ég annan gamlan samstarfsmann, Bjarna Þorsteinsson, sem hefur ekkert breyst nema honum hefur tekist að safna yfirskeggi á þessum fimmtán árum síðan við hættum að vinna saman.

Af forlagsskrifstofunni tók ég stefnuna á 12 tóna þar sem ég hafði mælt mér mót við nokkra herramenn, suma sem ég þekkti og aðra sem ég þekkti ekkert sérlega vel. Lalli í tólf tónum, minn gamli æskufélagi, tók höfðinglega á móti mér og rifjuðum við upp dularfull atvik úr Álftamýrarhverfinu. Fljótlega bættist í hópinn Gauti Kristmannsson sem ég þekki ekki persónulega en ég hef auðvitað heyrt um hann og heyrt í honum í útvarpi. Hann var fljótur að rifja upp og bregðast á gamansaman hátt við aðfinnslum mínum úr fyrri dagbókarfærslum þar sem ég var eitthvað að væla yfir því að hann gæti aldrei lagt mat á bækur í bókmenntagagnrýni sinni í Viðsjá. Greiningar hans á skáldverkum eru alltaf fínar og til fyrirmyndar en ég hafði pirrað mig á því að hann gæti aldrei sagt hvort honum þættu verkin væru vel heppnuð eða ekki. Við þurftum ekki að ræða þetta mál lengi því Jón Kaldal, sá mikli kappi, kom inn og fékk sér sæti við hlið okkar. Maggi Guðmunds, Guðmundur Andri, Runólfur Ágústsson (hann þekkti ég ekki en ég hafði gífurlega gaman að honum og öllum hans loftköstulum) og sjálfur Jón Kalman aðalmaður dagsins komu svo hver á eftir öðrum. Á þessu nýja öldurhúsi sem 12 tónar eru allt í einu orðið, spjallaði ég líka stuttlega við þýðandann Helgu Soffíu sem vék að mér góðu á leið minn út. Alltaf ánægjulegt að hitta þá glaðlegu konu.

Á ferðum mínum um Reykjavík þennan dag rakst ég einnig á sjálfan stjórnarformann Forlagsins, Halldór Guðmundsson. Aðstæður gáfu ekki tilefni til lengra spjalls en það spjall þurfum við að taka síðar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.