Í Frakklandi er litið svo á að bókabúðir séu menningastofnanir sem ber að vernda til að varðveita og styðja bókmenntirnar í landinu. En í Frakklandi eins og annars staðar eiga bókabúðir á götunni undir högg að sækja og samkeppnin við amazon hefur verið hörð og dregið lífskraftinn úr mörgum af bókabúðum landsins síðustu ár. Nú hefur franska ríkisstjórnin ákveðið að styðja götubókabúðirnar með því að setja í lög að það kosti að minnsta kosti 3 evrur í flutningskostnað að kaupa bækur á netinu. Á þessi ráðstöfun að hjálpa litlu bókabúðunum að lifa af.
Þetta var nú dagsskammturinn.
ps annars keypti ég bók í gær í litlu bókabúðinni Brøg inni í Kaupmannahöfn – það er svo sem ekki í frásögur færandi – nema vegna þess að bókin, skrifuð af rússneskri skáldkonunni Maria Stepanova, fjallar um konu sem heldur dagbók um allt sem gerist í lífi hennar án þess að setja minnstu tilfinningar í færslur sínar svo ómögulegt er að segja hvað henni þykir gott og hvað henni þykir ekki eins gott. Allt skiptir máli í færslum konunnar: við hverja hún talar í síma, hversu lengi, hvaða föt hún þvær og á hvaða hitastigi, hvað hún les, hve margar blaðsíður og hve lengi … Þar að auki skrifar hún dagbók sína aftur á bak; byrjar hverja færslu á því að tilkynna hvenær (nákvæmlega) hún leggst á koddann til að sofa. Ég segi frá þessu hér vegna þess að í mínum oft tilfinningarhlöðnu færslum, þar sem smáatriðin eru ekki tilgreind, hefur mér einstaka sinnum og óvart tekist að móðga aðila sem ég hef alls ekki haft í hyggju að særa eða móðga. En stundum er ég ekki nógu varkár. ég segi bara eins og danirnir sem eru algjörir sérfæðingar í að móðga ekki: Undskyld.