Ég fylgist stundum með veiðum lítils fiskibáts sem gerður er út frá höfninni hér í bænum til álaveiða – álaveiðar eru víst gífurlega ábatasamar veiðar fyrir slynga veiðimenn. Í morgun sá ég mennina tvo sem sigla þessum litla, bláa veiðibát rétt út fyrir ströndina. Þeir voru að vitja álanetanna (álagildranna) í rokinu. Vindurinn blés á land og ég stóð á ströndinni rétt utan bæjarins, með vindinn í fangið. Þótt báturinn væri 100 metra frá landi bárust hljóðin frá bátnum hratt til mín og voru svo greinilega að það var engu líkara en ég stæði mitt á milli sjómannanna.
Þar sem ég stóð einn í fjörunni hlustaði ég um stund á álaveiðimennina tvo tala saman um veiðina, píputóbak, mávana sem sveimuðu yfir þeim og netin. Þetta var létt hjal fullt af glensi og gleði. Mér varð hugsað til bókar eftir sænskan rithöfund, Patrik Svensson, sem ég las fyrir nokkru og er víst að koma út á Íslandi þessa dagana, Álabókin – sagan um heimsins furðulegasta fisk. En sú bók fjallar einmitt um tvo álaveiðimenn, föður og son, og samband þeirra. Ég fékk eiginlega á tilfinninguna að ég væri þarna í fjörunni að hlusta á samtal sögupersóna Álabókarinnar. Bókin er frábær, bæði óvenjuleg og heillandi. Sem sagt.