Espergærde. Dagbók í dagbók

„Sunnudagur. 10. maí 2020

Vorið er svalt, um nóttina ná hitatölurnar á hitamælinum varla yfir frostmarkið.
Ég talaða við Amöndu um Kristinu Lug sem dó í gær. Maj Sjöwall dó um daginn. Og líka P.O. Enquist fyrir nokkrum vikum. Þetta hefur áhrif á mig.
Maxim kom við til að fá medisterpulsur og kartöflumús. Hann hefur sennilega veikst af kóróna – hiti og höfuðverkur – en hann er ekki viss. Í Bandaríkjunum eru 33 milljónir manna án atvinnu og raðirnar eftir gjafamáltíðum vaxa.
– Framundan eru mörg örvæntingarfull ár, sagði ég. Þetta getur verið upphafið að lokum lýðræðis eins og við þekkjum það.
Maxim horfði niður á diskinn sinn án þess að segja svo margt. Hann verður tuttugu og eins í haust, lífið er framundan ….“

Svona hefst dagbók Åsa Linderborg sem nú er komin út í bókarformi og kallast „Árið með þrettán mánuðum“. Åsa er þekktur sænskur blaðamaður og varð enn þekktari eftir að hún skrifaði frétt í Aftonbladet á fyrstu mánuðum #metoo þar sem leikhússtjóri Stadsteatret í Stokkhólmi var sakaður um að eineltisstjórnun og harðstjórn. Fyrirsögnin hljóðaði svona í grein hennar: „Teaterchef pressade skådespelare til abort för en roll.“ Leikhússtjórinn, Benny Fredriksson, svaraði aldrei ásökununum sem prentaðar voru í Aftonbladet. Hann sagði samstundis upp og nokkrum mánuðum seinna svipti hann sig lífi. Blaðamaðurinn Åsa tók strax á sig sökina á sjálfsmorðinu og hún sá eftir að hafa skrifað fréttina. Við tóku margir mánuðir með sjálfsásökun og vanlíðan.

Hún hefur lengi skrifað dagbók og það er þessi dagbókarskrif sem hún birtir í bókinni með mánuðunum fyrir og eftir sjálfsmorð Benny. „Blaðamenn geta verið mjög kaldlyndir og sumum er alveg sama um aðrar manneskjur. Þeir vilja fá sína smelli, þeir vilja fá sín skúbb. En nú get ég sjálf ekki lengur skrifað texta. Ég er svo hrædd við hvað orð geta gert.“

Það er einmitt þessa bók sem ég les núna, Árið með þrettán mánuðum. Ég les líka Kate Atkinson, Málavextir, mér finnst Kate klár rithöfundur en bókin heldur langdregin þótt hún sé góð. Og þegar ég hleyp eftir götum bæjarins hlusta ég á bók Hildar Knútsdóttur, Vetrarfrí. Sú bók kemur mér á óvart þótt ég hafi ekkert vitað um bókina þegar ég byrjaði að hlusta – en nú verð ég að passa mig hvað ég segi – ég hafði alls ekki gert ráð fyrir að þetta væri einskonar hryllingssaga með blóði og aflimuðu fólki. Ég ætla samt að hlusta á hana til enda. Mér finnst forvitnilegt að lesa/ hlusta á höfunda sem skrifa fyrir unga lesendur.


dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.