Espergærde: „Ég kom inn á sviðið eins og f*cking Hans klaufi.“

„Er kominn tími til að þú sparkir almennilega frá þér? Veltir hinni íslensku bókmenntastofnun á hliðina með vel völdum orðum?“ Þetta var meðal annars efni lítillar orðsendingar sem ég fékk frá félaga mínum fyrir nokkrum dögum. Þetta var að sjálfsögðu sagt í hálfkæringi. En tilefni skrifanna voru hugleiðingar mínar um að ybba gogg í síðustu viku. Mér fannst þetta fyndið að hann teldi mig geta velt „hinni íslensku bókmenntastofnun á hliðina“ en ég upplýsi það hér og nú að ég hef ekkert á hina íslensku bókmenntastofnun sem gæti haggað henni hið minnsta.

Ég minnist á þetta nú því ég las viðtal við dönsku skáldkonuna Dorthe Nors sem skyndilega skaust upp á stjörnuhiminn hins alþjóðlega bókamarkaðar fyrir tveimur árum. Allt í einu var Drothe Nors – sem var algerleg óþekkt í bókmenntakreðsum Danmerkur  – kominn á allra varir í útlöndum. Oprah Winfred, ameríska sjónvarpsdaman sem getur stýrt með einum fingri hvað bækur bandarískir lesendur kaupa, tók Dorthe Nors undir sína verndarvængi eftir að smásaga hennar Karate Chop var prentuð í The New Yorker. Í kjölfarið var útgáfuréttur á bókum Dorthe Nors seldur til 18 landa. Hún var allt í einu heimsfræg og BBC tók viðtöl við hana, The Independent, The Atlantic, The Guardian … Heima í Danmörku höfðu bækur hennar selst í rúmlega 300 eintökum. Upphefðin kemur að utan, eins og sagt er, og eftir þennan óvænta meðbyr fóru bækur höfundarins að seljast í bílförmum í Danmörku.

Auðvitað varð Dorthe Nors glöð sérstaklega vegna þess að velgengni hennar var ekki því að þakka að hún hafði sleikt sig upp við rétta fólkið. „Ég fékk ekki meðbyr vegna þess að ég stóð opinmynnt og slefandi við hlið hinna „réttu“ á bókmennasamkomum í Kaupmannahöfn. Ég hef alltaf sagt við sjálfa mig að ég vil vera þekkt fyrir það sem ég get – ekki fyrir það með hverjum ég drekk, hverjum ég hæli opinberlega eða læka á facebook. En það voru margir sem sögðu við mig: Dorthe svona gengur þetta ekki fyrir sig. Ef þú vilt komast áfram verður þú að taka þátt í leiknum. En ég tók ekki þátt í leiknum, ég kom inn á sviðið eins og f*cking Hans klaufi.“

Þetta var saga úr dönskum bókmenntaheimum og sennilega er hægt að heimfæra þessa sögu til Íslands – ég veit ekki hverjir hæla hver öðrum á facebook á Íslandi, en það er sjálfsagt gert með góðum árangri.

ps. Langaði að benda á ansi skemmtilega grein eftir Sverri Norland í Stundinni. Þar fjallar hann meðal annars um ruslsöfnun, náttúruvernd og hinn frábæra David Sedaris.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.