Ég sá áhyggjublikið í augum Sus þegar ég sýndi henni línuritið sem ég hef útbúið yfir afköst mín síðustu daga. Þetta graf ætla ég að nota til að hvetja mig áfram í verkefnum mínum. Á grafinu eru 6 línur sem sýna mismunandi verkefni sem ég vinn í (þýðing, eigin skrif og önnur verkefni) og afkastaþróun þeirra eftir dögum. „Þetta er fyndið,“ sagði hún, „en mundu að þú ert jafngóður þótt afköstin séu í núlli.”
„Ja … en ég vil afkasta …“ svaraði ég.
„Já, já, fínt en ekki láta sálarheilsulínuna fylgja afkastalínunni. Sálarheilsulínan á alltaf að vera í toppi. 100% þótt afköstin séu núll.“
Línuritið mitt er núna fimm línur fjórar fyrir mismunandi verkefni sem ég vinn í og ein fyrir samanlögð afköst. Og í dag bæti ég við sálarheilsulínunni og gæti þess að hún sé algerlega í efsta stigi.
Ég gekk út á milli akrana í morgun í vorblíðunni. Ég heyrði fuglana synja, skógarþrösturinn með sinn fallega sögn, spætan bankaði í trén (sennilega að búa til hreiður) en ég saknaði kúnna sem stundum eru á beit í högum meðfram einum af stígunum. En þótt kýrnar væru enn í sínum fjósi hafði Carsten verið hleypt út. Skyndilega kom hann gangandi eftir stígnum. En Carsten er auglýsingamaður sem ég þekki frá Ítalíu (og Danmörku). Hann er alltaf fullur af orku, alltaf að springa.
„Nú er ég farinn að ganga. Um helgar geng ég 30 kílómetra hvern dag. Þetta er alveg nýtt. Ég fer bara út. Ég skulda engum neitt og get gert það sem mér sýnist. Og nú geng ég og það tekur tíma, marga klukkutíma.“
Ég hjó eftir þessu orðalagi „ég skulda engum neitt.“ Þetta er sennilega að mörgu leyti heilbrigð afstaða til lífsins. Ég á hins vegar erfitt með að tileinka mér þennan hugsanagang. Mér finnst ég yfirleitt bera ábyrgð á velferð og sálargleði allra.
Nú er föstudagurinn í langi. Í æsku minni heyrði ég oft að vinir mínir, Palli, Hemmi, Tommi, Ingi, Gunni, Steddi … töluðu um föstudaginn langa sem leiðinlegasta dag ársins. Og ósjálfrátt tók ég sökina á mig að þessi dagur var svo leiðinlegur af því að pabbi var prestur. Satt að segja held ég að þessi dagur hafi ekki verið mikið öðruvísi en venjulegur sunnudagur nema með þeirri undantekningu að sjoppan var lokuð og við gátum ekki keypt okkur kók og súkkulaði eftir fótbolta dagsins.