Espergærde. Erótíska skáldkonan er komin frá Saudi-Arabíu.

Ég hafði rétt náð niður á götuhorn í morgun þegar ég gekk í flasið á erótísku skáldkonunni sem býr hér í bænum. Við þekkjumst lauslega. Það tók mig augnablik að átta mig á hvaða kona þetta var sem skyndilega hrópaði svo hátt og fagnandi í hálfrökkrinu á Søbækvej þegar ég beygði fyrir hornið. Ég stóð allt í einu frammi fyrir afar ljóshærðri, afar krullhærðri og afar sólbrúnni konu í grænni kápu.
„Nei, hæ, nei, hææææ,“ hrópaði hún, opnaði faðminn og ætlaðist til að ég kastaði mér inn í mjúkan líkama hennar. Ég hikaði, ég kasta mér ekki í faðmlög, það er bara ekki mitt eðli. Ég steig þó fram og faðmaði konuna að mér og þótti kannski alveg nóg um því hún ætlaði bara ekki að sleppa mér. Hún kreisti mig inn í sig af slíkum innileik að ég fór að hugsa hvað ylli þessum ákafa. Mér fannst samband okkar ekki alveg gefa tilefni til þessarar nálægðar.

„Æ,“ sagði hún þegar hún loks losaði takið á mér. „Það er svo langt síðan við höfum hist.“ Og svo horfði hún djúpt í augun á mér eins og til að rifja upp kynni sín við þessa sál sem hún sá undir yfirborði augna minna. „Ég var að koma heim. Síðustu tvo mánuði hef ég búið í því skelfilega landi Saudi–Arabíu. Maðurinn minn er að vinna þar og ég fór með. Þetta er hræðilegt land!“
„Þangað hef ég ekki komið og get ekkert sagt,“ sagði ég.
„Ekki fara þangað. Ekki fara þangað!“ sagði hún og lagði sérstaka áherslu á „ekki“ með því að setja stutt hik á eftir orðinu. „Ekki (hik) fara þangað.“
„Nei, nei, ég er sko ekkert á leiðinni.“

Við gengum af stað því ég skynjaði á hreyfingum hennar að hún vildi í sömu átt og ég. Hún á ekki erfitt með að halda uppi samtali, eða eintali, erótíska skáldkonan og á meðan við fylgdumst að á göngu eftir Søbækvej lýsti hún fyrir mér sinni „ömurlegu tilveru“ í Arabaríkinu síðast liðna tvo mánuði. Ég ætla ekki að endurtaka orð hennar hér þótt frásögnin væri í sjálfu sér mjög forvitnileg en mér þótti áhugaverðara að heyra hana segja frá ritlistarnámskeiði sem hún heldur inni í Kaupmannahöfn. Ef ég skil vinkonu mína rétt er þetta gífurlega vinsælt námskeið og komast mun færri að en vilja.

„Í fyrsta tíma sagði ég nemendum mínum að ég mundi hefja hvern námskeiðsdag á því að láta þau hafa æfingu í að lýsa einu atvik sem þau yrði vitni að á leið sinni til Vestergade, þar sem ég held námskeiðið. Þetta er ansi góð æfing því bæði hvetur þetta nemendurna til að taka eftir umhverfi sínu á nýjan og vakandi hátt og líka vegna þess að þau hafa bara fimmtán mínútur til að skrifa lýsingu sína og því er nauðsynlegt að fara sparlega með orðin og vera nákvæm í orðavali.“
„Já, ég skil,“ sagði ég. Ég skildi alveg hvað hún átti við og mér þótti þetta athyglisverð æfing. Ég hugsaði með mér að hún væri líklega bara góður ritlistarkennari.

Við kvöddumst þegar ég beygði inn Gylfesvej og hún tók stefnuna á lestarstöðina. Ég passaði mig á að gefa henni ekki færi á of innilegri kveðjustund því ég beygði bara skyndilega og sagði „við sjáumst, gangi þér vel í dag,“ um leið og ég gekk áfram.

En á meðan ég stikaði í átt til skrifstofunnar hugsaði ég um námskeiðsverkefnið sem skáldkonan lýsti. Að vera vakandi fyrir eftirtektarverðum atvikum á leið til vinnu. Ef ég hefði verið á þessu námskeiði hefði ég valið að segja frá erótísku skáldkonunni og samtali okkar.

Donna Tarrt

Bókmenntamoli. Árið 2014 vann bandaríska skáldkonan Donna Tartt (sjá mynd) hin mikilvægu Pulitzer-verðlaun fyrir bók sína Goldfinch. Þetta var þriðja bók skáldkonunnar en hún er fædd á Þorláksmessu árið 1963. Goldfinch er mikill doðrantur um það bil 880 blaðsíður, en það fældi ekki John Crowley frá því gera kvikmynd eftir bókinni. Kvikmyndin verður frumsýnd á morgun 27. september. Bækur Donnu Tartt, The Secret History (1992) og Little Friend (2002) og Goldfinch (2013), hafa ekki komið út á íslensku.

Bókmenntamoli 2: Hvaða bók ætli Johannes Riis bókmenntaforstjóri Gyldendal hafa á náttborði sínu þessa dagana? Jú, ég hef svarið við því. Það er bókin Ör eftir Auði Ólafsdóttur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.