Espergærde. Ferðin til Krajanów

Þessa dagana les ég bækur pólsku skáldkonunnar Olgu Tokarczuk (hún vann Nóbelsverðlaunin í fyrra svo það sé skráð). Nú er ég búinn að lesa svo mörg orð og langa texta eftir þessa ágætu konu, sem er næstum jafnaldra mín, að mér finnst ég einhvern veginn vita hvernig hún er. Maður á auðvitað ekki að láta glepjast eða blekkjast af texta fólks, hann getur svikið, textinn, og látið mann trúa einhverju um fólk sem ekki er rétt. En þar sem ég hef verið í þeirri stöðu í lífinu að hafa lesið margar bækur og hitt marga af höfundum þeirra og átt við þá samtöl – sum löng og önnur stutt – finnst mér ég stundum geta reiknað út hvernig karakter höfundur er þegar ég les sögu. Þetta tel ég mér trú um.

Og nú les ég Olgu og mér finnst ég þekkja hana pínulítið. Þegar ég fór að velta persónu Olgu fyrir mér í gærkvöldi, þar sem ég sat undir leslampa í bláum hægindastól og las eina af bókum nóbelsverðlaunahafans, ákvað ég að skoða æviatriði skáldsins. (Þá notar maður Wikipedia.)
Fædd: 29. janúar 1962
Fæðingarstaður: Sulechów, (smábær í vesturhluta Póllands).
Menntun: Sálfræðingur (hún starfaði sem klínískur sálfræðingur í nokkur ár).
Fyrsta bók: Ljóðasafn sem kom út árið 1989,
Hjúskaparstaða: Gift og skilin og gift aftur og á einn son úr fyrra hjónabandi.
Býr nú: Í smábænum Krajanów sem liggur að landamærum Tékklands. Þar búa 160 manns. Fram til ársins 2004 rak hún bókaforlagið Ruta í þessu litla þorpi.

Þetta er Olga í stuttu máli. Hún sagði í viðtali að lestur á Sigmund Freud hefði sett rithöfundarferil hennar í gang. Þetta þótti mér skemmtilegt að lesa þar sem fyrsta bók sem ég reyndi að íslenska var einmitt eftir Sigmund Freud. The Psychology of Everyday Life, sem ég þýddi úr þýsku, enda nýkominn heim úr námsdvöl í Þýskalandi. Ég kláraði aldrei að þýða alla bókina, en ég var gífurlega áhugasamur um verkið, sat kvöld eftir kvöld við að snúa þessum tyrfna texta Freuds yfir á íslensku. Ég er hræddur um að þýðingin hafi verið meira í líkingu við Google Traslate en ekta þýðingu, því ég þrælelti merkingu þýsku orðanna, dauðhræddur við að þýða vitlaust.

Mig langar einhvern tíma að keyra til Krajanów og kíkja á þennan litla bæ, bæinn hennar Olgu. Ég veit ekki af hverju mig langar til þess, bærinn er örugglega nákvæmlega eins og aðrir austur-evrópskir smábæir og hann er langt í burtu. Kannski langar mig bara til að rekast á Olgu. (Ég sé að það tæki mig 9 klukkutíma og 57 mínútur að keyra þessa 828 km sem er á milli okkar). Ef ég mundi hitta hana í Krajanów mundi ég stöðva bílinn sem ég hefði keyrt í tæpa tíu klukkutíma í gegnum Evrópu, stíga út og kalla til hennar: „Olga!“ Hún mundi snúa sér við. Hún hefði bastkörfu hangandi á arminum fulla af fersku grænmeti.
„Já, það er ég,“ mundi hún svara. Hún mundi líka horfa undrandi á mig.
Síðan mundi ég rétta úr mér, ganga beinn í baki til hennar og hafa hægri hönd framrétta, til að sýna að ég vilji heilsa henni með handaband og hún mundi grípa í hönd mína þegar ég væri kominn alla leið til hennar og horfa spyrjandi á mig til að gefa til kynna að hún væri forvitin að heyra hvaða erindi svona langur maður ætti við hana. Eitt augnablik, áður en ég segði eitthvað, mundi ég furða mig á hvað hún hefði litla og fíngerða hönd. Eftir öll þessi ár við skriftir
Svona væri það nú. Þetta gerðist ári 2021.

Ég ætla að setja mynd af Olgu hér fyrir neðan (að vísu sjást hendur hennar ekki).

Þetta er Olga.

ps. Ég fékk ritdóm í gær á barnabókina sem ég skrifaði og kom út fyrr á þessu ári. Dómurinn birtist í vefútgáfu í vikublaðinu (?) Stundin. Ritdómarinn, Ásgeir H. Ingólfsson, skrifaði margt fallegt um söguna. Hann var góður við mig. Bestur þótti honum þessi kafli bókarinnar sem heitir Fjölskylda. Hann er svona í heild sinni (með leyfi höfundar):

Fjölskylda

Ég hugsaði stundum um það að ég vissi svo lítið um Guðjón G. Georgsson. Ég vissi lítið um fjölskylduna hans. Ef ég hugsa mig um vissi ég svo sem heldur ekki mikið um fjölskylduna mína.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.