Espergærde. Ferðin til Moldavíu

Á árunum eftir fall múrsins og eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur var mér boðið að taka þátt í að kaupa vínekru í Moldóvíu. Ég átti svo sem enga peninga en það skipti víst ekki máli í þessum viðskiptum. Ég sagðist taka þátt í ævintýrinu. Saga víngerðar í Moldóvíu er löng og þar eru að sumra sögn framleidd nokkur af bestu vínum heims. Ráðamenn í Kreml þekktu þessi vín og á velmegunartímum Kremlarherra pöntuðu þeir vínföng frá Moldóvíu fyrir veislur sínar. En við fall Sovétríkjanna lenti víniðnaðurinn í Moldóvíu í skelfilegri kreppu. Öllu hnignaði og vínekrur lentu í óhirðu og niðurníðslu. Sömu sögu er að segja um alla þær fínu hallir vínkónganna í Moldóvíu. Fátækt þeirra var svo mikil að þeir neyddust bæði til að selja úr sér annað nýrað, þær tennur sem enn voru heilar og dætur sínar til að lifa kreppuna af.

Í þessu árferði sá félagi minn möguleika á að kaupa væna vínekru og hefja nýtt líf í Moldóvíu og í þetta ævintýri vildi hann fá mig með sér. Við flugum af stað, báðir ungir og bjartsýnir og eftir töluvert ferðalag í flugvélum, járnbrautarlestum og rútu enduðum við í hinu mikla vínræktarhéraði Cahul sem er í suðurhluta Moldóvíu.

Við komum á áfangastað seint um kvöld á heitum sumardegi. Þegar við stigum út úr rútunni man ég að það skall á mig slíkur hitaveggur að ég hélt að ég myndi kafna þarna á rútutröppunum. Ég hafði tekið eftir hinum niðurníddu húsum út um rútugluggann á leiðinni, fátæktinni og hnignuninni. Ég hugsaði með mér: Hvað er ég eiginlega að gera hér? Hér á ég aldrei eftir að þrífast. Ég sá sama efasemdarblik í augum félaga míns sem alltaf bar sig vel. Þarna á hrörlegri rútustöðinni í miðri Cahul (höfuðborg héraðsins) virtist ekki standa steinn yfir steini. Sjálf rútumiðstöðin var gamall braggi sem mátti muna sinn fífil fegurri. Önnur hver rúða var brotin eða sprungin og þær rúður sem enn voru heilar voru svo rykugar að ómögulegt var að sjá í gegnum þær. Gamlar rútur stóðu á loftlausum dekkjum á planinu sumar meira að segja dekkjalausar. En þarna beið okkar ungur maður. Hann hafði augsýnilega farið í sín bestu föt. Hann var klæddur í gráleitt jakkasett úr fremur ódýru efni sem stóð honum á beini og glansaði óþægilega mikið í skini götulampanna sem lýstu upp rútuplanið. Innan undir jakkanum var skjannahvít skyrta sem hann hneppti upp í háls. Hann var í útgengnum lakkskóm með alltof langa tá sem skagaði aðeins upp eins og nefið á Gosa. Hann var vel greiddur. Kolsvart hárið var greitt til hliðar og þungur lokkur hafði tilhneigingu til að detta fyrir annað augað á honum.

Hann tók vinsamlega á móti okkur með hálftannlausu brosi. Það fór ekki á milli mála hverjir við vorum því við vorum einu farþegar þessarar rútu sem hugsanlega gætum verið ættaðir norðan Alpafjalla. Flestir meðfarþegar okkar voru komnir nokkuð til ára sinna, flestir konur með skuplur á höfðinu og allskyns pinkla í skautinu. Já hann brosti breitt, ungi maðurinn sem hafði fengið það hlutverk að taka á móti okkur og ferja okkur á hótel og sýna okkur næstu daga þær eignir sem voru til sölu (ég held satt að segja að allt hafi verið til sölu, slík var eymdin.)

Okkur var komið á lítið hótel þar sem við vorum einu gestirnir ásamt feitum vínkaupanda frá Þýskalandi. Hann sat einn við barómynd og drakk vískí þegar við komum. Það var eins og hann hafði búist við okkur því þegar við komum inn stóð hann snöggt upp og hraðaði sér til okkar með framrétta hönd eins og hann vildi bjóða okkur velkomna. Það var greinlegt að hann var nokkuð drukkinn því hann hálf hrasaði um sjálfan sig á leið sinni til okkar og orðin sem komu út úr munninum voru svo loðin af áfengi að mjög erfitt var að greina orðaskil. En ég heyrði þó að hann kallaði okkur „the great investors“ sem mér þótti óskaplega hlægilegt.

Ég má ekki vera að því að rifja upp þessa sögu hér, skrifverkstæðið hefur ekki efni á svona slóri, en í stuttu máli var okkur bæði boðnar víðfeðmar vínekrur, hálfhrunin íbúðarhús, hlöður, traktorar (Ursus) og konur á öllum aldri. Allt var ormétið veðskuldum. Eiginlega má segja að við félagarnir hrökkluðumst frá Moldavíu eftir þriggja daga dvöl og mikla þeysireið í Ladabíl vinar okkar í hvítu skyrtunni eftir malarvegum héraðsins til móts við hvern bóndann á fætur öðrum sem allir voru ákafir í að selja þessum miklu “investors” allt sem þeir gátu hugsanlega selt til að bjarga sér frá eymd sinni.

OG afhverju er ég að segja frá þessu nú? Ja, það er nú það. Sennilega kom mér þessi ferð í hug þegar ég las frásögn fréttakonunnar Zulay Magzieva um lífið í Tjetjeníu í bók sem ég les meðfram öðru sem kallast Hin horfna Tjetjenía. Sex stjörnu bók segir Politiken og þess vegna byrjaði ég að lesa hana í gær. (Er hálnaður)

ps. Í dag er víngerðin í Cahul hins vegar í miklum blóma og er landið 11 mesta vínræktarland Evrópu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.