Þessa dagana hlusta ég á hljóðbók um villigarðrækt The Garden Jungle eftir ágætan enskan mann Dave Goulson. Ég kynntist Dave Goulson fyrir nokkrum árum því ég gaf út á dönsku bækurnar hans um býflugur og þýðingu þeirra fyrir náttúruna. Ég bauð honum til Danmerkur í heimsókn til að kynna bækurnar sínar. Og það var gott að ég gerði það. Hann er einn af þeim mönnum sem maður vill þekkja og halda áfram að þekkja; kurteis, áhugaverður, áhugasamur og velviljaður. Ég er því miður ekki lengur í sambandi við hann. En þegar ég hlusta á hann lesa bókina sína um ræktun villigarða rifjast upp samveran með honum. Notalegur, fyrirmyndar náungi.
Bókin hans sem ég hlusta á – ég skil ekki allt, því hann nefnir ótal ensk plöntunöfn og ég þekki hvorki íslenskar plöntur né nöfn þeirra á ensku, (þessu hefur mig alltaf langað til að ráða bót á) – fjallar um hvernig hver og einn getur lagt sitt að mörkum til að gera jörðina heilbrigða. Og hvernig gerir maður það? Maður fer út í garð með skóflu í hönd. Samkvæmt Dave er leiðin til að bjarga heiminum að rækta garðinn sinn í bókstaflegri og yfirfærðri merkingu. Hlúa að plöntum og öllum þeim smádýrum sem lifa í garðinum og auka fjölbreytni dýra og plöntulífs í eigin ranni. Og hann meinar það. Þetta er auðvitað frábær nálgun til að fá hvern og einn til að skilja þann vanda sem lífið á jörðinni glímir við og hvernig hægt er að snúa við þeirri þróun. Andstætt þeirri sjálfsmyndarnálgun sem er stunduð með litlum árangri.
Sem sagt. Í vinnunni hlusta ég á nýju plötuna hans Nick Cave Ghosteen á repeat. Hljómurinn á þessari hljómplötu passar bara fullkomlega við sálarlíf mitt þessa dagana. Stórkostleg plata. Og svo les ég PO Enquist.