Espergærde. Hægt er hratt

Einn af mínum góðu vinum er farinn að taka upp þann sið að senda mér skýrslu af lífi sínu einu sinni í viku. Það er venjulega á sunnudögum eða snemma mánudagsmorguns sem ég fæ þessar skýrslur. Í dag er mánudagur og snemma í morgun keyrði ég Núma á lestarstöðina. Hann er á leið í skólaferðalag til Möltu og þurfti að vera mættur í lestina klukkan 05:00. Ég var sem sagt á leið út úr dyrunum til að keyra Núma þegar tölvupósturinn með skýrslunni barst og ég hugsaði með mér að ég mundi hella mér upp á kaffi og borða kanilsnúð á meðan ég læsi vikuskýrsluna þegar ég væri búinn að keyra Núma.

Það var því með tilhlökkun að ég settist við eldhúsborðið, með morgunkaffið og dagsgamlan snúð, til að lesa bréfið. Auðvitað var almyrkt úti enda klukkan ekki nema rétt rúmlega fimm um nótt. Ég ákvað að fresta aðeins bréflestrinum því ég fann að ég þurfti að pissa (kannski vegna tilhlökkunarinnar) og ég velti meira að segja fyrir mér hvort ég ætti að nýta mér náttmyrkrið og pissa í runna úti í garði eða hvort ég ætti að hegða mér eins og siðaður maður og pissa í klósettið áður en ég einbeitti mér að lestrinum.

En það sem ég vildi segja. Bréfið olli mér ekki vonbrigðum frekar en fyrri daginn og það sem kannski vakti mesta athygli mína og hafði dýpst áhrif á mig var vangaveltur vinar míns um tímann og um hægðina. Hann vitnaði meðal annars í Guðrún Evu sem segir í pistli sem birtist einhvers staðar: „Með því að hægja á sjálfum okkur hægjum við á tímanum … þegar við erum í hægagangi erum við opin og móttækileg fyrir áhrifum að innan sem utan. Samtímis höfum við svigrúm til að meta áhrifin, sía burt það sem við viljum ekki og leyfa ómótuðum hugsunum að þorskast. Það er gaman að fljúga. Hraðinn lætur okkur fljúga, en hægðin fær okkur til að svífa … mér er fullkomið undrunarefni að eftir að ég sór hægðinni hollustueið hafa afköstin aukist. Hægt er hratt.“ Þetta er gott hjá Guðrúnu Evu.

Það var einmitt með vangavelturnar um hægðina og orð Guðrúnar Evu í huga þegar ég gekk af stað til vinnu í morgun. Ég var staðráðinn í að gefa mig á vald hægðinni að minnsta kosti í dag. Hægt er hratt. Það var því kannski viðeigandi að mitt á gönguleið minni barst undurfalleg píanótónlist út um glugga. Það var augljóst að einhver tónlistarmaður æfði sig við opinn glugga. Ég þekkti lagið, Preludia í E-moll eftir J.S. Bach. Ég leyfði mér að staldra við fyrir neðan gluggann. Lagið minnti mig á þegar ég var sjálfur í tónlistarnámi í Tónskóla Sigursveins og beið úti á gangi eftir að kennslutíminn minn byrjaði og hlustaði á óminn af píanótónlist nemanda úr næstu kennslustofu.

Ég leyfði mér líka að láta það vera mitt alfyrsta verk þegar ég mætti til vinnu að setjast niður í hægindastólinn minn í horninu á skrifstofunni með kaffibolla og klára einn kafla í bókinni sem ég er að lesa; 30 mínútur í algjörri ró. Ég leyfði mér að lesa hægt.

Bókmenntamoli. Zadie Smith, breski rithöfundurinn sem fæddur er í London þann 25. október, sagði í nýlegu viðtali sem ég las að sú bók sem hefur haft mest áhrif á bækur hennar er The Magic Finger eftir Roald Dahl og sú bók sem kveikti þá hugmynd í kolli hennar að skrifa bækur var George’s Marvellous Medicine  eftir sama Roald Dahl. Þetta hef ég alltaf sagt. Barnabækur eru mikilvægar.

ps. bók vikunnar hér í glugga skrifstofunnar er Hálfbróðirinn eftir Lars Saaby Christensen sem kom út á íslensku fyrir mörgum árum og er ein af þeim bókum sem hafa haft mest áhrif á mig sem lesanda. Í glugganum er danska útgáfan.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.