Ég sofnaði í gærkvöldi út frá einni hugsun og vaknaði með sömu hugsun í höfðinu. Það gerist sennilega ekki oft. Í gærkvöldi fékk ég þær góðu fréttir að sjálft Þjóðleikhúsið, leikhús allra landsmanna, vildi tala við mig. Ég hafði tekið þátt í einhvers konar samkeppni um barnaleikrit fyrr í ár og nú segir sjálfur listræni ráðunautur hússins í vinsamlegum tölvupósti að þau vilji skoða leikritið mitt betur. Ég veit ekki meir en ég varð nokkuð ánægður í gærkvöldi, sofnaði sem sagt glaður yfir þessum óvæntu tíðindum og vaknaði glaður yfir hugsuninni um tíðindin.
Þetta gerðist: ég stóð inni í eldhúsinu í gærkvöldi og beið eftir að kaffið mitt rynni niður í bollann minn. Ég drekk líka kaffi á kvöldin. Ég hafði af einhverjum ástæðum verið að hugsa um Pink Floyd, hljómsveitina. Nafnið á hljómsveitinni hafði alltaf verið mér ráðgáta frá því ég fékk skyndilegt uppáhald á fjórmenningunum í Pink Floyd. Systir mín hafði komið með hljómplötuna Atom Heart Mother inn á heimilið rétt eftir að platan kom út. Utan á umslaginu var þessi fallega kýr. Ég var gersamlega heillaður af plötuumslaginu. Mér þótti það svo fallegt. Ég var níu ára og sagði öllum félögum mínum að ég hefði eignast nýja uppáhaldshljómsveit. Pink Floyd. Og þá var spurt: hvað þýðir eiginlega Pink Floyd? Ég held að Palli Vals hafi verið sérstaklega áhugasamur um nafnið á þessari hljómsveit. Ég eyddi dögum í að reyna að finna svar við þessari spurningu; ég gekk niður í Þingholtsstræti 28b þar sem Borgarbókasafnið var til húsa og reyndi að finna svarið, ég spurði pabba minn sem hafði menntað sig í Oxford en hann vissi bara að Pink væri enska orðið yfir bleikur og að til væri boxari sem héti Floyd. Kannski var þetta nafn í höfuðið á boxaranum því þeir verða oft bleikir í slagsmálunum sínum.
Ég man að þegar ég fékk þessa skýringu hjá pabba hljóp ég yfir til Palla. Klukkan var að vísu meira en tíu um kvöld og það var dimmt úti. Ég bankaði á dyrnar heima hjá Palla. Hann bjó í sama raðhúsi og ég. Ernu mömmu Palla fannst þetta heimskulegur tími til að banka upp á. Palli væri fyrir löngu sofnaður. Hún sagði mér að fara heim. Ég jánkaði því. Ég skyldi fara heim en ég var svo spenntur að mig langaði líka að segja Tomma og Ingimari sem bjuggu við hlið Palla frá uppgötvun minni um Pink Floyd. Ég þóttist því ganga heim á leið en um leið og ég heyrði Ernu loka dyrunum sneri ég við og var á leið upp tröppurnar til Tomma og Inga til að banka upp á hjá þeim þegar Erna var aftur mætt út. Hún þekkti mig og henni fannst ég ekki sérlega vel upp alinn. „Snæi!“ kallaði hún. „Þú skalt fara heim núna. Það er seint um kvöld og þú skalt ekki spyrja eftir Inga og Tomma núna. Farðu heima að sofa.“
Ég gafst upp og fór heim að sofa.
En nú mörgum áratugum síðar, sama kvöld og Þjóleikhúsið kallaði mig til samstarfs, sá ég með hjálp tölvu að þetta með nafnið á Pink Floyd var ekki rétt. Nafnið tengdist ekki á nokkurn hátt boxaranum Floyd. Heldur mun hljómsveitin hafa heitið Sigma 6 þegar söngvarinn Sid Barrett gekk til liðs við hljómsveitina og hann var fljótur að henda Sigma 6 nafninu. Hann vildi nýtt nafn: The Tea Set var nafnið sem hann fann og það var samþykkt af hinum hljómsveitarmeðlimunum. En svo óheppilega vildi til að á næstu tónleikum sem þeir áttu að koma fram á var önnur hljómsveit með nákvæmlega sama nafn! The Tea Set. Áður en þeir stigu á svið hafði Barrett komið með nýtt nafn: Pink Floyd. Pink Floyd í höfuðið á blues-mönnunum amerísku, Pink Anderson og Floyd Council.
Hér er mynd af Atom Heart Mother plötuumslaginu.
