Espergærde. Lenin í heimsókn.

Ég hef aldrei verið sérstaklega vel að mér í sagnfræði þótt ég æ oftar hugsi með sjálfum mér að sennilega yrði ég glaður ef ég myndi sökkva mér niður í sagnfræði 20. aldar svona til að hafa hana á hreinu. Á maður ekki að skilja sjálfan sig betur ef maður þekkir fortíð sína? Það segja stjörnufræðingarnir.

Ég minnist á þetta hér því ég hef í mörg ár, eða alveg frá því að ég flutti í útlegð mína til Danmerkur, furðað mig á rauðum ferningi sem er fyrir ofan útihurð á húsi hér skammt frá þar sem ég bý. Húsið stendur á Stokholmsvej hér í Espergærde. Fyrst hélt ég að ferningurinn væri rauð plasthlíf yfir rafmagnsúttaki og mér þótti hún firnaljót og skildi bara ekki í því hvers vegna eigendurnir feldu ekki rafmagnsúttakið með einhverju fallegra. En svo kom sumarið í sumar og húsið var allt málað og gert skínandi flott. En nú varð ferningurinn bara enn rauðari. Ég tók þá eftir að ný rauð flís úr keramikhafði verið sett í stað þess sem ég hélt að hefði verið plasthlíf. Ég hef sem sagt lengi furðað mig á þessari flís. Nú birti ég mynd.

Leyndardómar rauða ferhyrningsins.

Í gær á göngu minni hitti ég fasteignasala sem snerist um sjálfan sig; sennilega að leita að húsi til að selja. Ég pikkaði í fasteignasalann og spurði hvort vitað væri hvert hlutverk þessa rauða ferhyrnings á veggnum væri.
„Já, hann er þarna vegna þess að Lenin hefur verið í þessu húsi,“ sagði fasteignasalinn eins og ekkert væri sjálfsagðara en að Lenín kæmi hingað til Espergærde í heimsókn.

Ég held að ég hafi furðað mig svo á þessum upplýsingum að ég þagnaði bara og virti húsið fyrir mér, rauða kassann … en svo var fasteignasalinn horfinn; sennilega hefur hún komið auga á girnilegt hús, vænlegt til sölu.

Ég stóð sem sagt þarna og velti þessum nýfengnu upplýsingum fyrir mér og hvort ég hafi heyrt rétt að Lenin hefði verið í heimsókn hér í Espergærde. Í gærkvöldi leitað ég svo á náðir Gooooogle og við einfalda leit fann ég frétt í gömlu dagblaði um að Martin Andersen Nexø, höfundur Gittu mannsbarns og Palla sigurvegara hefði búið í þessu húsi með rauða ferninginn á þeim árum sem hann skrifaði þessar þekktustu bækur sínar (1910 – 1923) en einmitt þennan rauðliða heimsótti Lenin árið 1910 – þá nýkominn frá Ítalíu þar sem hann hafði vitjað annars skálds; Maxím Gorkí sem líka var í útlegð eins og við Lenin.

Þetta var skýrsla um sagnfræðirannsóknir. Yo!

Fyrir þá sem ekki skilja dönsku þýði ég fyrirsögnina: Lenín í Espergærde.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.