Espergærde. Menningarapinn

Venjulega þegar ég fer inn á netsíður erlendra dagblaða eins og Guardian eða New York Times vel ég alltaf að fyrst veginn inn í CULTURE og þaðan oftast inn á BOOKS. Ég hef sennilega … ekkert sennilega … ég hef mestan áhuga á menningu og bókum. En ég furða mig því alltaf dálítið á því að á stærsti netfjölmiðli Íslands er enginn hnappur fyrir áhugamenn um listir eða bókmenntir. Auðvitað eru þarna markaðsöflin svokölluðu að verki; því sem ekki er spurt eftir er ekki í boði, eða er það öfugt, það sem ekki er í boði er ekki spurt eftir. Hér kemur mynd af netborða mbl.is. Bara til að sýna að ég fer ekki með rangt mál.

Þetta er valborði mbl.is. Enginn menningarhnappur.

Stundum hugsa ég af hverju það er svona mikilvægt fyrir mig að útbreiða menningaráhuga; áhuga á bókmenntum, myndlist, arkitektúr, kvikmyndum … því fólk virðist bara hafa það nokkuð fínt án yfirþyrmandi menningaráhuga. Ég hef svo mikla gleði af þessum þáttum mannlífsins að mig langar svo að fleiri uppgötvi þennan fjársjóð.

Ég er líka mikill áhugamaður um fótbolta og hef fylgst með fótbolta frá því ég var smábarn en ég hef engan áhuga á að breiða út áhugann á fótbolta.

Í morgun, eins og aðra morgna gerði ég hinar fimm æfingar Tíbetmunkanna. Þessar fimm æfingar endurtek ég níu sinnum; smám saman hef ég fjölgað endurtekningunum. Mér skilst að það sé hluti af æfingunum að yfirvinna leiðindin, óþolið sem magnast upp í manni þegar maður fer í gegnum æfingaröðina. Ég verð óþolinmóður við endurtekninguna. Mér líður á sama hátt og þegar ég stend í biðröð, ég varð svo óþolinmóður. En Tíbetmunkarnir eru örugglega að kenna mér þolinmæði með æfingunum sínum. Ég á að læra að gefa mig á vald æfinganna og hvíla í þeim.

Í gærkvöldi hlustaði ég á Eirík Guðmundsson ræða við breska rithöfundinn Ian McEwan í Viðsjá. Ian Mc Ewan hefur einmitt verið í heimsókn á Íslandi síðustu daga. Það var ansi gott spjall og hann er góður viðmælandi, rithöfundurinn McEwan og áhugavert að hlusta á hann.

Bókmenntamoli: Miklar sviptingar eru nú á hinum danska bókamarkaði. Gyldendal, stærsta bókaforlag Danmerkur ákvað að loka dótturforlagi sínu Rosinante á dögunum. Rosinante hefur verið rekin sem alsjálfstæð eining þótt Gyldendal hafi átt útgáfufyrirtækið að fullu. Rosinante hafði skrifstofur sínar annars staðar í Kaupmannahöfn en Gyldendal og hafði sína eigin ritstjórn, markaðsdeild og fjármáladeild. Undir fána Rosinante hafa komið út meðal annars Peter Høeg, Helle Helle, Ken Follet, E.L James, Jose Saramago …. En nú er lokað. Allt fer undir Gyldendal en þetta hefur vakið mikinn óróa meðal höfunda sem margir hverjir hafa engan áhuga á að flytja til stórforlagsins.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.