Espergærde. Þvílíkt óverðskuldað hype

Ég varð var við (af tölvupóstum og símtölum) að sumir misskildu skrif mín um bóksölufall á Íslandi. Það var sérstaklega þessi setning sem menn túlkuðu öðruvísi en ég hafði hugsað. „Ég gæti með sama rétti sagt að aðalorsökin [fyrir minnkandi bóksölu] sé að á Íslandi koma út of margar slappar bækur sem eru seldar á fölskum forsendum.“

Ég á alls ekki við, eins og sumir héldu, að forlögin eigi að minnka útgáfu á svokölluðum afþreyingarbókum, krimmum, ástarsögum, Morgan Kane, erótík… og einbeita sér að því sem kallað er fagurbókmenntir. Mjög stór hluti bóklesenda sekkur sér niður afþreyingarbókmenntir og nýtur þess að lesa slíkar bækur. Í rauninni er þetta hópurinn sem heldur bókaútgáfu á Íslandi gangandi. Ég hef alls ekkert á móti slíkum bókum, þvert á móti fagna ég þeim innilega. Það sem ég átti við er að sumar bækur – og þá á ég í rauninni sérstaklega við fagurbókmenntaútgáfu –fá fyrir jólasöluna þvílíkt púst, þvílíkt óverðskuldað hype að lesendur geta ekki annað en orðið fyrir vonbrigðum þegar þeir festa sjálfir tennur í þessar bækur sem eru hafnar upp til skýjanna á fölskum forsendum. Fyrir hver jól, oft strax í október, fær ein og stundum fleiri bækur ógnarmikinn meðvind. Þann meðbyr er ekki alltaf gott að skilja. Þessar bækur eru á margra vörum löngu áður en nokkur hefur náð að lesa viðkomandi titil, og hólið er ekki sparað. Á Íslandi eru svo ótal mörg dæmi um bækur sem lenda í þessum flokki. Ég ætla ekki að nefna verk sem eru þessu marki brennd. Allir sem lesa íslenskar bækur og fylgjast örlítið með bókaumræðu fyrir jól vita hvað ég tala um.

Ég rakst á skrif rithöfundarins Eiríks Arnar Norðdahl þar sem hann segir: „Útgefendur leggja meira og meira í færri og ómerkilegri titla – alvöru lestri er lítið sinnt, alvöru bókmenntir eru bara gefnar út til að geta merkt við í kladdann að svo hafi verið gert. Að prenta 50 gráa skugga og þannig rusl í bílförmum… “

Ég er sem sagt gersamlega ósammála þessu viðhorfi. Ég er sannfærður að mun fleiri lesendur hafa fengið meira út úr að lesa 50 gráa skugga, Jo Nesbø, Paulu Hawkins og aðra „ómerkilega titla“…  en einhverja ranglega upphæpaða íslenska skáldsögu sem öllum er gleymd strax eftir að jólasölunni er lokið. Ég tek það strax fram, til að fyrirbyggja misskilning, að á hverju ári koma líka út góðar íslenskar skáldsögur sem vekja mikla gleði lesenda. Ég vil bara benda á að fólk sækir í mismunandi lesreynslu. Sumir vilja glæpasögur, sumir vilja lesa vandaðar fagurbókmenntir og fá mest út úr slíkum lestri.

Þetta var um íslenska bókaútgáfu. Ég vona bara að bókútgefendur rísi upp með nýjum krafti og boði, með eld í huga, fögnuð bókmenntanna til að koma í veg fyrir ótímabæran dauða þessa mikilvæga listforms.

Tannlæknirinn minn boðaði sitt fagnaðarerindi í gær: „þú munt líða óbærilegar þjáningar næstu þrjá daga,“ sagði hún þegar ég yfirgaf tannlæknastofuna einni tönn fátækari. Sem betur fer hafði hún rangt fyrir sér. Ég er, jú, tönn fátækari, en að öðru leyti stálsleginn og í toppformi. Yo.

ps. fann þetta ágæta skilti (sjá toppmynd) sem ég tók mynd af.

pps. Áhugamenn um stafsetningu geta skemmt sér yfir notkun stórra bókstafa í skiltinu.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.