Espergærde. Viðskipti í úthverfi Helsingør

Ég hafði gleymt því í morgun að ég átti að mæti til hins svokallað „surprise fredag“. Við erum átta sem skiptumst á að koma hvert öðru á óvart hvern föstudagsmorgun klukkan 7:45. Í dag var það Jesper K. sem sá um hið óvænta.

Þegar ég vaknaði í morgun sá ég að það voru fullt af skilaboðum sem ég hafði ekki tekið eftir í gær á símanum mínum. Meira og minna snerust allar orðsendingarnar um surprise fredag. Úps, hugsaði ég, surprise fredag! Ég var alveg búinn að gleyma því. Af skilaboðunum mátti skilja að við áttum að hittast á bílastæðinu fyrir framan búðirnar hérna í bænum klukkan 7:45. „Þetta er elite sport, fín fyrstu verðlaun í boði,“ hafði Jesper K sagt í einu af SMS-unum „og því er nauðsynlegt að hafa pungbindi með.“ Ég á ekki pungbindi, heldur ekki Sus og ekki heldur Pia. Við mættum þó á réttum tíma á bílastæðinu fyrir framan búðirnar, klædd elite sport-fötum en án pungbindis.

„Keyrið á eftir mér,“ sagði Jesper K út í gegnum opna bílrúðuna um leið og við renndum inn á bílastæðið. Það var augljóst að Jesper K mátti engan tíma missa. Og svo var keyrt af stað. Við sátum fjögur í bílnum mínum og keyrðum á eftir Mazda bíl Jespers K og í honum voru hin fjögur. Eftir því sem bíltúrinn varð lengri urðu ágiskanirnar samferðamanna minna æ fleiri: „Þetta er örugglega dans, sem Jesper er búinn að skipuleggja, það er dansskólin hérna til vinstri.“ „Nei, hann ætlar með okkur í squash, það er squach-salur í Helsingør.“ Við stefndum nefnilega á Helsingør. „Squash, getur það verið? Nei, er ekki bowling í Helsingør, hann er alltaf að tala um bowling hann Jesper?“ „Nei, bowlingsalurinn er fyrir löngu farinn á hausinn.“ …

Og við keyrðum lengra og lengra, langt inn í Helsingør, gegnum iðnaðarhverfið og út í úthverfi bæjarins. Þegar við loks stoppuðum fyrir utan byggingu sem virkaði löngu yfirgefin voru allir hættir að giska. Jesper K hoppaði út úr bílnum, með tvær rauðvínsflöskur undir hendinni og verðlaunagripinn sem hann hafði pakkað inn í fallegan gjafapappír. „Fylgið mér!“ sagði hann gekk rösklega í átt að opnum dyrum á þessari lúpulegu byggingu. Mér varð litið upp eftir húshliðinni og sá að flestra rúðurnar voru brotnar og ekki ljós neins staðar í húsinu. Þessi bygging beið þess eins að verða rifin. Hér var ekkert.

Þegar inn var komið tók á móti okkur í anddyrinu stór, leðurklæddur maður með risastórt yfirskegg. Jesper K rétti honum báðar rauðvínsflöskurnar. „Hér er greiðslan,“ sagði hann um leið og sá skeggjaði tók við flöskunum og virti þær furðulega gaumgæfilega fyrir sér, eins og til að ganga úr skugga um að varan væri ósvikin eða nákvæmlega það sem hann hafði farið fram á sem greiðslu. Augnablikin liðu og svo sagði Jesper K loks hikandi: „Er þetta ekki rétt?“ Sá skeggjaði svaraði ekki strax heldur hélt áfram að skoða flöskurnar, bar þær upp í ljósið og kíkti undir botninn. Við hin stóðum þarna í anddyrinu og fylgdumst með viðskiptum Jespers K og skeggjaða mannsins. Þögnin þarna í ganginum, á meðan við biðum eftir niðurstöðu frá þessum þungbúna, leðurklædda skeggmanni, sem skoðaði rauðvínsflöskurnar af fáránlegri nákvæmni, varaði í heila eilífð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.