Espergærde. Vítahringur

Það rignir í dag. Aftur í dag eins og í gær, en þó ekki í sálinni, ekki í dag frekar en í gær. Ég tók fína regnmynd, ljósmynd, á leið minni til vinnu. Myndin er af regndropum sem perla á vélarhlíf fíns bíls, svokallaðs lúxusbíls, sem ég gekk framhjá niður á Søbækvej. Ég læt myndina skreyta færslu dagsins.

Í gær eða fyrradag las ég grein um bóklestur í hinu fína dagblaði New York Times. Það var ungur maður (karlmaður í þessu tilviki) sem skrifaði um lestrarvenjur sínar. Hann hafði uppgötvað að hann fékk ekki lengur eins mikið út úr því að lesa eins og í „gamla daga“. Þegar hann fór að velta fyrir sér ástæðunum komst hann að því að hann læsi kannski fimm mínútur í senn og svo athugaði hann eitthvað á símanum sínum og las síðan áfram í aðrar fimm eða tíu mínútur. Eftir hálftíma lestur með þessum símapásum lagði hann bókina frá sér af því að hann komst aldrei almennilega í samband við lesturinn. Þetta endurtók sig næsta dag og næstu daga. Hann var eilífð að lesa eina bók, sama bókin lá á náttborðinu vikum saman. En svo ákvað hann að breyta lesmynstri sínu. Hann hætti að kíkja eilíft á símann sinn og einbeitti sér í klukkutíma að lesa í bókinni og þá gerðist það. Allt í einu fann hann hvernig hann sogaðist inn i lesheiminn, hann mundi miklu betur hvað hafði gerst í bókinni, hvað aukapersónur stóðu fyrir og hver var hvað og lesreynslan varð allt í einu aftur ánægjuleg. Á þennan hátt rauf hann þann vonda spíral, vítahringinn, sem hann sigldi hratt og örugglega niður. Niðurstaða hans, lesa í lengri tíma í einu á einbeittan hátt

Ég nefni þetta hér þar sem mér varð hugsað til þess í gær að ég hef ekki verið sérlega duglegur að lesa undanfarna daga. Í gærkvöldi og fyrrakvöld átti fótboltinn hug minn allan og dagana þar á undan hef ég setið frameftir kvöldi yfir tölvunni minni og unnið; ég hafði aldrei þessu vant deadline. Nefstóri auðnuleysinginn átti annríkt. Auk þess er ég að bíða eftir þremur bókum sem ég hlakka til að lesa. Ég veit að þessar þrjár bækur eru í fórum dönsku póstþjónustunnar og það er bara tímaspursmál hvenær vinur minn, póstdrengurinn, bankar upp á hjá mér til að afhenda mér bækurnar þrjár (þó tvær mismunandi póstsendingar) prívat og persónulega. Ég á því miður ekki harðfisk handa honum.

ps. Ég rakst á metsölulista félags íslenskra bókaútgefanda fyrir aprílmánuð og sá í fimm efstu sætunum er ein barnabók (Gunnar Helgason, Barist í Barcelona) þrjár norrænar glæpasögur (Kepler, Läckberg og Sören Svendstrup) og ein megrunarbók (Ketó). Mér til nokkurra vonbrigða voru ekki margar bækur á listanum eftir höfunda sem voru gestir Bókmenntahátíðar í Reykjavík.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.