Hvalfjörður. Farfuglinn og brekkuhlauparinn

Ég hafði hugsað mér að fara í langan göngutúr síðar í dag – það er nefnilega ekki hlaupadagur. Ég hef ekki enn ákveðið gönguleiðina en ég hafði velt því fyrir mér að enda í kirkjugarðinum við Saurbæjarkirkju. Vitja þeirra dánu. Að vísu veit ég að slíkur göngutúr gæti tekið allt að tveimur klukkutímum – háð því hvaða leið ég vel – en svo langa fjarveru frá vinnu á ég svolítið erfitt með. Ég þarf að herða upp hugann.

Í gær, á mínu langhlaupi eftir þjóðveginum hér í Hvalfirði, var mér veitt eftirför; ekki af bíl eða öðrum hlaupamanni því hér eru hvorki bílar né aðrir hlaupamenn á ferð. Ég hljóp með vindinn í fangið eftir götukantinum. Allt í einu vakti eftirtekt mína eymdarlegt kvak yfir höfðinu á mér, mér varð litið upp og rétt fyrir ofan mig flaug brúnleitur fugl. Ég hefði nánast geta teygt mig í hann slíkt var lágflugið. Ekki stóð mér ógn af fuglinum, þótt hann væri rétt við höfuðið á mér því eitthvað hjálparleysi var í svip hans. Ég er ekki frá því að þetta hafi verið sami fuglinn – kominn alla leið hingað í íslenska fjörðinn – og eltir mig stundum á sandveginum milli akranna í Danmörku. Þetta er langur og mjór fugli með langt nef og hann flýgur með hægum og fáum vængjatökum. Hvað þessi fugl heitir veit ég ekki en hann hefur sérstakt eintóna kvak sem er bæði eymdarlegt og sorglegt. Þetta er tónn einsemdarinnar, hugsa ég alltaf þegar ég heyri eymdarsöng hans. En fuglinn fylgdi mér alla leið frá afleggjarnaum að Hótel Glym og lét sig svo hverfa þegar ég beygði út af þjóðveginum rúmum tveimur kílómetrum síðar og hóf brekkuhlaupið í átt að húsinu. Fuglinn missti því af því hvernig ég barðist með erfiðismunum upp brekkuna og mér þótti enn og aftur undarlega þungt að hlaupa síðustu 600 metrana upp hallann að húsi. Kannski er ég bara þreyttur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.