Ég skynjaði titringinn alveg út á bílastæðið. Ég hafði fengið far með rauðum pallbíl frá Hótel Sögu og niður á Bræðraborgarstíg með viðkomu á Kaffi Vest þar sem fólk sat ánægt í sólskininu. „Hver pantaði veganborgara,“ heyrði ég í gegnum opinn bílgluggann Gisla Martein hrópa til að aðstoða þjónninn sem hafði gengið um stund ráðvilltur milli útigestanna með kjötlausa hamborgarann á bakka. Enginn gaf sig fram. Við keyrðum áfram á pallbílnum. Ég þekki ekki bíltegundina en mig grunar að þessi bíll heiti Toyota Highlux. Þegar við tveir, því við voru tveir í bílnum, stöðvuðum bílinn fyrir utan höfuðstöðvar Forlagins og ég opnaði bíldyrnar fann ég bæði titring og lykt af hugaræsing berast til mín frá skrifstofunni. Ég átti erindi á skrifstofuna.
Já, það er víst hugaræsingur meðal þeirra sem tilheyra stétt rithöfunda. Hvaða þýðingu hefur það fyrir bókarhöfund að sænska fyrirtækið Storytel hefur keypt íslenska Forlagið spyrja þeir sig. Á meðan rithöfundar ganga angistarfullir um gólf og velta þessari ágengu spurningu fyrir sér hljóma samlesnar auglýsingar í Ríkisútvarpinu „Bjartur. Íslenskt forlag í 30 ár.“
Er ástæða fyrir þessum æsingi? Ég er bókarhöfundur (yo!) og ég hef velt spurningunni fyrir mér og ég hef komist að minni niðurstöðu. Einni afgerandi niðurstöðu: Þetta breytir akkúrat engu. Ekki í bráð. En í lengd verður sú breyting að stærri hluti tekna rithöfunda verður af sölu hljóð- og rafbóka. Sala prentaðra bóka hefur minnkað undanfarin ár og ekkert sem bendir til þess að hún aukist snarlega á næstu árum. Áhugi almennings á bókum hefur mér vitanleg ekki aukist. Ýmislegt bendir þó til þess að notkun hljóðbóka meðal almennings vaxi. Sú hefur þróunin verið víða í Evrópu og í Bandaríkjunum. Kannski gerist það líka á Íslandi og nýjustu atburðirnir á bókamarkaði ætti ekki að minnka líkurnar á að svo verði einnig á Íslandi. Mörgum þykir auðveldara að nota eyrun en augun til að lesa bók.
Í samningum rithöfunda við forlög sín fær höfundur ákveðinn hluta (oft í kringum 23%) sölutekna af bók til sín. Þegar forlag semur um sölu hljóðbókar (ákveðið gjald fyrir hverja spilun) til Storytel fær höfundurinn því sinn hluta af þeirri sölu. Höfundur getur þó valið að semja ekki um hljóðbókarrétt og halda honum þess í stað sjálfur. Þá fær hann engar hljóðbókartekjur. Verður það til þess að höfundurinn selji fleiri prentaðar bækur? Ekki endilega, og sennilega ekki. Áskrifendur Storytel eru ekki líklegir til að hlaupa út í búð og kaupa bók sem þeir hafa ekki aðgang að á Storytel heldur snúa þeir sér að þeim bókum sem aðgengilegar eru á streymisveitunni. Tekjur af hljóðbókaspilun er því oftast hrein viðbót fyrir rithöfunda.
Rithöfundasambandið hefur sent frá sér yfirlýsingu að þeim finnst leitt að útlent fyrirtæki eignist meirihluta í stærsta bókaforlagi Íslands. Þessi nýi innflytjandi, Storytel, er ekki vinsæll.