Hvalfjörður. Sviðsskrekkurinn

Ég hafði eiginlega gert ráð fyrir að ég yrði enn stressaðri á þessum degi en ég er í raun og veru. Þó er ég þjakaður af einhverjum furðulegum svima, bæði í gær og í dag. Í gær kenndi ég óhóflegri kaffidrykkju um, en það gat ég ekki í morgun þegar ég gekk óstyrkum fótum inn í eldhús án þess að hafa fengið morgunkaffi og hélt alls ekki beinni göngulínu.

En í dag er úthlutað tvennum mikilvæg bókmenntaverðlaunum og spurning hvor verðlaunin skyggja á hin. Bókmenntaverðlaun Nóbels verða veitt klukkan 10:45 á íslenskum tíma og spái ég að fyrrum farþegi minn í gamla Mercedes Benz bílnum mínum – á leiðinni milli Norrænahúss og Hótel 101 Reykjavík – Margaret Atwood hreppi hnossið. Hvort hún eigi það frekar skilið en einhver annar góður rithöfundur veit ég ekkert um. En svo getur líka verið að ég hafi kolrangt fyrir mér. Kannski er Jón Kalman bara næsti verðlaunahafi. Það sást að minnsta kosti til hans í morgun á leið upp í flugvél í Keflavík. Hvort sú vél var á leið til Arlanda í Stokkhólmi er mér ekki kunnugt um. Ég held að ég hafi rétt fyrir mér þegar ég segi að á skrokk vélarinnar var málað Icelandair, sem er nafnið á flugfélaginu, en fremst við nef vélarinnar var skrifað með Helvetica letri Hengill, en það er nafnið á sjálfri flugvélinni.

Hin verðlaunin, sem líka verða veitt í dag, eru Hin íslensku barnabókaverðlaun.. Verðlaunaathöfnin, sem haldin er í Valhúsaskóla, er á sama tíma og athöfnin í Stokkhólmi. Ég geri ekki ráð fyrir að viðburðinum verði lýst beint á helstu fréttamiðlum heims, veðbankar hafa ekki gefið neitt út um hugsanlega vinningshafa. Ég veit bara að ég hef fundið fyrir undarlegum svima og hjarta mitt hefur slegið aðeins hraðar en venjulega síðustu klukkutíma. Ætli það sé ekki vegna þess að ég er ekki sérlega mikið gefinn fyrir að standa á sviði.

dagbók

Ein athugasemd við “Hvalfjörður. Sviðsskrekkurinn

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.