Kanada, Vancouver.

Það er langt síðan ég hef heyrt fréttir á RÚV. En í morgun ákvað ég að nota tæknina og hlusta á hádegsfréttir dagsins á netinu. Þótt hér í Kananda væri árla morguns var þegar búið að útvarpa hádegisfréttum á Íslandi með frétt um að Davíð Oddsson ætlaða að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Ég hafði skynjað að þessi tíðindi voru í uppsiglingu svo ég kippti mér svo sem ekki upp við þetta. En langaði aðeins að heyra hvað fréttamenn RÚV segðu um málið. Ég kýs hvorki Davíð og né Ólaf Ragnar. Íslenskur fréttalesturinn er eitthvað svo hátíðlegur og alvarlegur.

Fyrst ég var byrjaður að hlusta á RÚV kannaði ég hvað annað en fréttir væri væri í boði á RÚV. Við vorum á leið frá Sunshine Coast svo við þurftum að pakka saman og ganga frá húsinu. Fátt er betra en að hlusta á RÚV á meðan maður vaskar upp og tekur til. Ég fann nýlegt viðtal Jórunnar Sigurðardóttur við Braga Ólafsson, skáld. Viðtalið er tekið í tilefni af útkomu smásagnasafnsins DULNEFNIN. Viðtalið lét ég óma á meðan gekk frá. Samtalið var bara notalegt og allir komust óskaddaðir frá því. Mér þótti þó undarlegt að heyra að þáttastjórnandinn hafði ekki lesið bókina áður en viðtalið hófst, það viðurkenndi hún í útsendinguni,  en setti þó fram þá hlægilegu fullyrðingu að kvenpersónur í bók Braga væru miklu færri en karlpersónurnar. Og hvað með það? hugsaði ég. En svo kom játningin, hún hafði hvorki talið persónur eftir kyni né lesið allar sögurnar. Eiga skáldin nú að passa sig á að hafa nákvæmlega jafnmarga karla og konur í sögum sínum?  Ekki finnst mér þetta mikill metnaður hjá stjórnandanum. Og ekki fannst mér Bragi svara þessu djarflega. „Ég get upplýst að sögumaður þeirrar sögu sem ég er að vinna að núna er kona,“ svaraði Bragi. Stórkostlegt framlag til jafnréttisbaráttunnar.

Við keyrðum til Vancouver í dag og vorum komin um 2 leytið inn í bæinn. Hér eru Kínverjar út um allt. Hér er ekki þverfótað fyrir þeim. Þetta er hálf kínversk borg. Enda skilst mér að hjá Kínverjum sé vinsælt að flytja peninga frá Kína yfir til Vancouver. Afleiðingin er að fermetraverð íbúðarhúsnæðis hér er það hæsta í heiminum. Kínverjar berjast um að fá að kaupa íbúðir í Vancouver og pressa verð upp úr öllu valdi. Maður heyrir miklar óánægjuraddir frá þeim Kanadabúum sem við höfum hitt yfir þessari þróun.

Við sjálf búum í lítilli íbúð fyrir ofan Starbucks í einu af skemmtilegri hverfum Vancouver. Héðan er stutt í tennisvöll og nú er verkefni morgundagsins að finna tennisspaða.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.