París. Í íbúðinni hans Batman.

Ég er lentur í París. Það er kvöld, úti er dimmt, ég hef lagt frá mér ferðatöskuna mína inni svefnherberginu á Batmaníbúðinni hér í París og búinn að tengja hátalarana við tölvuna mína. Nú spila ég sálma.

Í fluginu, með SAS flugfélaginu, kláraði ég að lesa bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Sakramenti. Ég var eiginlega snortinn af mörgu í þessari bók. Þetta er dapurleg saga um vond örlög. Ég fékk tárin í augun, ég kemst auðveldlega í tilfinningauppnám. Mér finnst Ólafi Jóhanni stundum takast frábærlega upp. Margir kaflar eru hreint stórgóðir og áhrifamiklir. Eitthvað er þó við strúkturinn á bókinni sem truflaði mig (ferðalögin tvö til Íslands) og kannski tempóið. Ég held að Ólafur Jóhann standi svolítið sér á báti í íslenskum bókmenntum. Það er hvorki slæmt né gott. Það er bara enginn íslenskur nútíma rithöfundur sem skrifar á sama hátt og Ólafur. Það er eitthvað útlent við skrif Ólafs. Það finnst mér (verð að muna að bæta þessu við. Ekki vil ég fá yfir mig skítahlass. Ég er svo berskjaldaður hér í París.).  Kannski skrifast það á reikning þess að hafa búið svona lengi úti í útlöndunum. Þetta er góð bók að lesa. Ég varð glaður yfir bókinni.

Það var eitthvað dapurlegt við að keyra inn í Parísarborg í niðamyrkri (fluginu seinkaði svo mikið) og hafa bókina hans Ólafs í blóðinu. Því ég vorkenndi sannarlega höfuðpersónu bókarinnar. Það kallaði á sálma. Og nú hlusta ég á sálma á meðan ég undirbý morgundaginn. Ég er svangur í Batmaníbúð en nenni ekki út að fá mér að borða. Ætti eiginlega að fara út á tapasbarinn hérna á horninu og heilsa upp á vini mína. Nei, ég nærist á sálmum í kvöld. Yo!

PS. Heyrði í einum vini mínum sem skrifar bækur: „Ég sá konu sem var að lesa bókina mína í strætó. Ég ætlaði eiginlega að heilsa henni og fá smá spjall en tók þá eftir því að ég var í sömu skyrtu og á höfundarmynd bókarinnar. Ég hætti við, vildi ekki að hún héldi að ég ætti bara eina skyrtu.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.