Samtal á kaffihúsi.

Það drífur ekki margt á daga mína hér í París. Ég lifi að sumu leyti eins og munkur, borða ekki allan daginn, drekk bara vatn (nei, eiginlega ekkert kaffi), sit, les og skrifa. Í gærkvöldi reif ég mig þó upp og gekk út á veitingastað hér í götunni og pantaði mér kolkrabba í kvöldmat. (Eiginlega er kolkrabbi uppáhaldsrétturinn minn, svo dvölin er ekki tóm sjálfspína). Þegar ég hugsa til baka uppgötvaði ég að ég sagði varla orð í gær. Ég talaði ekki við neinn nema þjónustustúlkuna á kaffihúsinu sem spurði mig við hvað ég starfaði. Dagleg heimsókn svona hávaxins manns með stórt nef vekur stundum athygli.

Þjónustustúlkan er varfærin. Hún spurði hvort mig langaði í annan kaffibolla sem ég afþakkaði. „Nei, takk,“ sagði ég. Þá staldraði hún við eitt augnablik við, beygði sig yfir mig og spurði feimnislega, eins og í trúnaði.
„Við hvað starfið þér?“
Auðvitað kom fát á mig því ég veit aldrei hvað ég á að segja þegar ég er spurður um starfsheiti. Eftir andartaks hik sagði ég:
„Ég er að vinna að fimmtu bók minni. Ég skrifa bækur um þessar mundir.“
„Hvernig bækur skrifið þér?“ sagði hún. Áhugi hennar var engin uppgerð.
„Síðasta bókin mín var glæpasaga, nei, spennusaga … en bækurnar …“
„Skrifið þér nýja spennusögu … hér hjá okkur?“ Hún brosti uppörvandi.
„Nei, það geri ég ekki … ég skrifa svolítið annað þegar ég sit hérna …“ Ég leit á hana og sagði svo afsakandi: „Ég skrifa dagbókina mína hérna.“ Hún hló.
„Skrifið þér um okkur?“ Hún átti við starfsfólkið á kaffihúsinu.
Ég brosti bara og ákvað að fara ekki nánar út í það sem ég hef skrifað um þessa þokkafullu og hógværu þjónustustúlku í dagbókina mína. Ég verð alltaf svo vandræðalegur þegar ég á að tala um bókaskrif mín og það skynjaði þessi skynsama þjónustustúlka svo hún brosti bara til mín. „Þér eruð alveg viss um að þér viljið ekki annan kaffibolla.“

Þetta voru öll orðin sem ég sagði í gær. Fyrir flesta hljómar Parísartilveran eins og óspennandi líf. Fyrir flesta er þetta örugglega óbærilega leiðinlegt. En ég finn að ég er glaður. Þegar ég geng eftir götum Parísar á leið á kaffihúsið eða aftur á leið heim hríslast um mig … ja, … hamingjukennd … gleði.

Ein vika í svona munkalífi er líka alveg nóg fyrir mig. Svo er gott að komast aftur í faðm míns fólks.

ps. Ég hef ákveðið að hlaupa nýja leið í dag. Mig langar að hlaupa yfir Signu og út til götunnar sem Linn Ullmann segir frá í bók sinni „Stúlkan, 1983.“ Rue des Anglais. Snýst allt líf mitt um bókmenntir?

pps. Ég vaknaði í nótt við söng fólks úti á götunni. Og ég gat ekki sofnað aftur og því teygði ég mig í bókina sem ég les. J.K. Rowling. Þegar ég skoðaði bókakápuna í ljósi náttlampans fór ég að hugsa um að um þessar mundir les ég einungis bækur eftir konur. Það er ekki með ráðum gert enda er ég svo hundleiður á þessum eilífu flokkadráttum kynjanna. Ég vel bara bækur sem vekja áhuga minn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.