St. Barts. Bæklingasöfnun

Í dag barst mér óvæntur tölvupóstur frá alþjóðlegu bókamessunni í Torino á Ítalíu. Nú vilja þeir bjóða mér til messunnar, borga uppihald og hótelkostnað  og ég veit ekki hvað. Einhver hafði mælt með mér. Ég var auðvitað upp með mér en get því miður ekki þegið þetta góða boð þar sem ég verð í Kanada þegar messan er haldin.

Ég var lengi bókaútgefandi án þess að fara á bókamessu. Áhuginn var fyrir hendi, þar sem maður heyrði alltaf margt gott um messurnar í Frankfurt og í London. Þar gerðust kaupin á eyrinni. En ég hafði bara ekki efni á að fara.

Einar Kárason mun hafa sagt brandara um þessa fjarveru mína sem hljóðar einhvern veginn svona: “Snæi fór aldrei á bókamessur. En svo ákvað hann að kíkja við einn dag í Frankfurt, keypti Harry Potter og fór heim.”

Þetta er ekki rétt þótt þetta sé fyndið. Mín fyrsta heimsókn til Frankfurt var skandall. Ég vissi ekkert hvað fram fór á bókamessu. En svo ég útskýri, þá ganga bókamessur út á fyrirfram ákveðna fundi (á fyrirfram ákveðnum bás) milli tveggja útgefenda (og báðir reyna að selja útgáfurétt að bókum sínum) og líka út á fundi milli útgefenda og umboðsmanna höfunda (þá reyna umboðsmennirnir að selja höfunda sína).  Ég vissi ekkert um þessar venjur og átti ekki bókaðan fund með einum né neinum þetta fyrsta ár mitt í Frankfurt. Ég ráfaði því fávís um í þessum 7 risahöllum sem hýsa bókamessuna og kíkti inn í bása forlagana þar sem forlögin sýna nýjust bækur sínar. Básarnir liggja hlið við hlið í kílómetra löngum röðum.Og raðirnar eru örugglega 20. Og sjö hallir!

En  ég gekk um og  þáði bæklinga hjá þeim forlögum sem buðu mér bækling. Ég fékk bæklinga frá ótúlegustu forlögum, írönskum barnabókaforlögum, japönskum jing og jang forlögum, enskum bókmenntaforlögum… En ég furðaði mig alltaf á afhverju fólk sat við borð inni á básunum oft einn móti einum eins og um fund væri að ræða. Það skyldi ég ekki. Ég var kominn með tvo nýðþunga poka fulla af bæklingum strax á hádegi fyrsta dags og var farinn að hafa ægilegar áhyggjur af því hvernig ég kæmi öllum þessum bæklingum með heim til Íslands. Hvernig fór fólk að, hvað gerði fólk á bókamessum? Ég forðaðist íslensku básana eins og heitan eldinn og Íslendinga yfirleitt. Mér fannst ég svo út úr kú á þessari bókamessu og gat bara ekki látið sjá mig.

Um fimmleytið fór ég heim á hótelherbergið og byrjaði að kíkja á bæklingana. Ég hugsaði um það sem gerst hafði fyrsta dag bókamessunnar, gönguna frá því um morgun og fram á eftirmiðdag milli allra básana. Án þess að fá vott né þurt. Ég var búinn að fá upp fyrir haus af bókum. Og ég átti eftir að vera einn dag til viðbótar. Æ, hvernig gat fólk verið á bókamessu í heila viku, þessi eini dagur var fullkomlega algjört overkill fyrir mig. Ég vissi að um kvöldið voru víða partý og stuð, en ég var bara alls ekki í stuði fyrir slíkt stuð og ég vissi svo sem ekkert hvert ég ætti fara til að finna  stuðið.

Næsta morgun vaknaði ég snemma og hugsaði með hryllingi til þess að ég ætti eftir að ganga milli bása annan daginn í röð og safna bæklingum. Þetta var martröð. Ég lét mig hafa það. Ég fór aftur af stað og byrjaði upp á nýtt. Gekk milli bása og tók við bæklingum. Þetta var nú meiri vitleysan, hugsaði ég með mér. Hvað er svona merkilegt við Frankfurt-messuna? Ég gekk áfram og skyndilega stendur forleggjarinn með þverslaufuna, Pétur Már Ólafsson, fyrir framan mig. Glansandi í andlitinu af spenningi yfir messunni. Ég átti engrar undankomu auðið. Hann var elskulegheitin uppmáluð.
“Nei, komdu sæll og blessaður, elskan mín,” sagði hann og var mjög upp í gír. “Ég vissi ekki að þú værir hér.”
“Nei, ég kom í gær,” sagði ég aumingjalega og reyndi að gera þetta samtal eins stutt og mögulegt.
“Ertu búinn að finna eitthvað?”
Hvað átti maðurinn við? Finna eitthvað? Meinti hann í bæklingunum?
“Mér fannst Faber&Faber bæklingurinn mjög fínn,” sagði ég og reyndi að sýna að ég var með á nótunum.
“Faber&Faber bæklingurinn? Nú. Ég hef ekki séð hann,” sagði Pétur Már, “Ég verð að útvega mér hann,” bætti hann kusteislega við.
“Hvernig gengur hjá þér?” spurði ég.
“Fínt, en ég verð að rjúka, ég á nefnilega fund með MacLehouse, núna!” og hann benti á úrið og hljóp af stað.
Eftir þetta stutta samtal hefur Pétur Már alltaf fengið plús hjá mér. Hann sýndi respekt,  þegar léttast var að upphefja sjálfan sig. Ég átti sannarlega eftir að bregðast Pétri seinna. En það er önnur saga.

MacLehouse? Hver í ósköpunum  var MacLehouse?

Bókamessur hafa aldrei verið sérstakt uppáhald hjá mér. En sem betur fer tókst mér seinna meir að finna út á að bókamessur gengu ekki út á að safna bæklingum.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.