Bologna og eftirför. Mér hefur aldrei fyrr dottið í hug að setja þessi tvö orð í sömu setningu. En hér er ég á franskri grund í miðju karabíska hafinu og í gær var ég spurður að því (þar sem ég stóð á strönd og horfði á hús falið bak við pálmatré) hvað væri mín greinilegasta minning frá ferðalagi í Evrópu. Fyrsta myndin sem skaust upp í kollinn á mér (algerlega óritskoðað), og gæti því verið skilgreind eftirminnilegust, var frá eins dags dvöl í Bologna fyrir mörgum árum. Af einhverjum ástæðum var ég einn ferð og einn á hóteli í borginni sem ég þá þekkti ekki.
Mér leiddist. Það var hásumar, sól hátt á lofti og steikjandi hiti. Ég hafði hótelherbergi í miðbænum og gekk um borgina án þess að hafa eirð í mér eða vita hvað ég ætti af mér að gera. Og ekki hafði ég ró í mínum beinum til að sitja inni á hótelherbergi. Ég gekk því stefnulaust um Bologna, þar til ég áttaði mig á að ég var orðinn glorhungraður og það ýtti undir óróleika minn. Ég byrjaði því að skima eftir búð til að kaupa mérl eitthvað í gogginn, ekki hafði ég áhuga á að sitja einn á veitingahúsi í ítalskri borg. Ég gekk hverja götuna á fætur annarri án þess að finna nokkuð sem minnti hið minnsta á matvöruverslun.

Ég var orðinn nokkuð örvæntingafullur og skildi bara alls ekki í hvernig íbúar Bologna lifðu veruna í borginni af, án þess að geta keypt nauðsynjar innan bæjarmúranna. Bologna liggur mitt í hinni svonefndu matarkistu Ítalíu. Á Pósléttunni og hér var engin matvöruverslun. Ég settist á bekk og virti fólk fyrir mér til að sjá hvort einhver gengi með innkaupapoka. Það var margt fólk á ferli, allir virtust hafa margt á sinni könnu og skunduðu greitt eftir sólbökuðum gangstéttunum án þess að líta til hægri eða vinstri. Ég fann ekki nokkurn mann með innkaupapoka í hendinni, það er að segja innkaupapoka greinilega merktan ítalskri matvörubúð.
Það var ekki um annað að ræða en að standa á fætur og finna upp á einhverju öðru. Enga björgun var að finna á bekknum. Ég skimaði í kringum mig og ákvað að velja einhvern sem virkaði svangur. Einhvern sem var líklega á leið að kaupa mat. Framhjá mér geisti miðaldra maður, hvorki með tösku né poka í hendinni og ég ákvað að gera hann að fórnarlambi mínu og gekk á eftir manninum. Hann var á hraðferð, klæddur gráum jakkafötum, svo ég mátti hafa mig allan við svo hann hyrfi ekki fyrir götuhorn. Ekki vegna þess að hann var í gráum jakkafötum heldur vegna þess að hann var á hraðferð. Bullandi hraðferð. 180 km á klukkustund. Maðurinn gekk þar að auki mjög ákveðnum skrefum svo ég var alveg öruggur um að hann vissi vel hvert hann ætlaði. Ég reyndi að passa að hann yrði ekki var við að honum væri veitt eftirför svo ég hélt mig í nokkurri fjarlægð.
Við höfðum ábyggilega gengið í fimmtán mínútur á æðisgengnum hraða eftir þröngum götum miðborgar Bologna, og ég var farinn að óttast að rata ekki aftur til baka, þegar maðurinn hvarf skyndilega. Ég var bullandi sveittur og leitaði örvæntingarfullur eftir jakkafatamanninum meðal hinna gangandi vegfarenda, en ég gat ekki komið auga á hann. Sólin bakaði á mér skallann. Svitinn rann niður eftir andlitinu. Ég hljóp af stað, skimandi í allar áttir, stoppaði, sneri við og leit inn í fataverslanir (og af þeim var enginn skortur). Manninn var bara ekki að sjá. Ég stóð kyrr og bjó mig undir að ganga til baka þegar hann kom allt í einu gangandi á móti mér, nú með sígarettu í munnvikinu og glottandi. Vissi hann að honum var veitt eftirför? Ég reyndi að láta eins og ekkert væri, en var að deyja úr skömm og starði á manninn sem nálgaðist mig nú skælbrosandi. Hvað var ég að hugsa með að elta mann í stórborg? Ég beið eftir að hann hellti sig yfir mig. Kallaði á lögguna. Hæddist að mér fyrir þessa undarlegu tilburði í útlenskir borg.
En brosið var ekki ætlað mér, því hann gekk framhjá mér og áfram veginn. Ég hikaði örlitla stund, enda brugðið, til að ákveða hvort ég ætti að halda eftirförinni áfram. Mér fannst ekki annað í spilunum, ég gæti ekki byrjað að elta aðra manneskju, upp á von og óvon, svo ég skundaði aftur af stað í fótspor mannsinns. En það var komið hik á mig. Í vasanum hringdi síminn minn. Ég leit á skjáinn til að kanna hver hringdi. Nei, ekki núna, hugsaði ég og setti símann aftur niður í vasann og þurrkaði svitann. Sem betur fer beygði maðurinn nú inn í verslun og þegar ég kom nær sá ég að þarna var nákvæmlega það sem mig hafði dreymt um. Hér voru seldar allir heimsins sælkeraréttir, tilbúnir á diskinn. Réttir fyrir hina uppteknu fjölskyldu sem ekki hafði tíma til að elda. Ég gekk óhræddur inn. Eins og venjulega mat ég aðstæður rétt. Svangur maður er augljóslega svangur maður. Og hann endar í matvörubúð.
Hér fékk ég það sem mig dreymdi um. Grillaðan kjúkling með gljándi brúna skorpu, léttreykta skinku, eðalpaté, karöflusalat með kapers og nýbakað brauð. Ég gekk alsæll upp á hótelherbergið mitt með krásirnar og settist fyrir framan sjónvarpið og horfði á Tour de France (Lance Amstrong datt, en hoppaði aftur upp á hjólið og vann. Mjög frægt.) Borðaði fjarmat og skolaði þessu öllu niður með þessum líka fína microbruggbjór. Frábært. Og í eftirrétt var ítalskur ís sem ég fékk í ísbúð við hliðina á hótelinu. Þetta man maður bara svona.