„Þú kemst ekki hjá því“

„Rithöfundar eru alltaf að reyna að ímynda sér heima sem þeir þekkja ekki. Ef þú ert kona, til dæmis, verður þú líka að skrifa um karla. Þú kemst ekki hjá því.“ Þetta las ég í gær haft eftir öldruðum breskum rithöfundi og Bookerverðlaunahafa, Penelope Lively. Ég veit ekki afhverju mér þótti þetta eitthvað svo fyndið. Ég hló að minnsta kosti einn með sjálfum mér.

Í gær heyrði ég stutta sögu sem mér finnst ég hafa heyrt áður. En sagan þótti mér góð. Sérstaklega af því að sögumaðurinn ungi var sjálfur svo upprifinn þegar hann sagði söguna. Sagan er um það bil svona:
Lítill drengur hittir sölumann.
„Góðan daginn,“ sagði drengurinn
„Góðan daginn,“ sagði sölumaðurinn.
Sölumaðurinn seldi töflur sem höfðu verið framleiddar til að slökkva þorsta. Með því að gleypa eina slíka töflu á viku var óþarfi  að drekka.
„Af hverju selurðu þær?“ spurði drengurinn.
„Vegna þess að með þessum töflum sparar maður ægilega mikinn tíma,“ sagði sölumaðurinn. „Allir útreikningar hafa verið framkvæmdir af sérfræðingum og það kemur í ljós að með því að taka þessar töflur spararðu nákvæmlega 53 mínútur á viku.“
„Og hvað á maður að gera við þessar 53 mínútur?“
„Bara það sem þú vilt …“
„Ef ég fengi 53 mínútur sem ég gæti notað að eigin vild,“ sagði litli drengurinn, „mundi ég nota þær til að fá mér hressingargöngu í átt að ferskvatnslindinni.“

Ég er um það bil að klára bók Hildar Knútsdóttur (nú er farið að ýta á mig að lesa fleiri bækur svo ég verð að herða mig). Ég er svolítið ánægður með þá aðferð sem hún notar við frásögnina, nefnilega að hafa kaflana stutta og suma mjög stutta (bara eina setningu). Þessi aðferð – sem ég þekki vel og er dálítill aðdáandi hennar (aðferðarinnar) – á ekki alltaf við. En í spennusögum, þar sem oft skiptir miklu máli að tempóið sé gott er þessi aðferð í mörgum tilfellum alveg kjörin. Frásögnin verður kannski ekki eins þétt –  þessi bók er ekki eins þétt og fyrir bækur höfundar (t.d. Nornin, Ljónið …} – en hún verður hröð á réttum stöðum. Ég klára bókina í dag og það verður forvitnilegt að sjá hvort plottið heldur.

Mín bíður mikill doðrantur. 610 síðna bók eftir Stuart Turton sem mér er ætlað að lesa. Það er víst svakaleg lífreynsla að lesa þá bók. (Þegar höfundur var spurður hvernig það hefði verið að skrifa svona gífurlega flókna bók í fjölmörgum lögum, undirlögum og tímalögum … svaraði hann. „Just awful.“) Ég skil hann.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.