Espergærde. Biðin langa.

Hugurinn er sjálfstætt land og þar er hægt að skapa himnaríki úr helvíti, hugsaði ég á leið minni á vinnustofuna. Þetta hugsaði ég til að herða mig og lyfta mér upp. Ekkert er eins mikilvægt nú en að halda skapinu góðu þegar maður hittir enga nema eigin fjölskyldu. Ég var einn á ferð en vindurinn sem blés úr austri reynda að hefta för mína, eða að minnsta kosti dempa gönguhraðann.

Ég hafði hlakkað til að hitta tilvistarsálfræðinginn sem ég átti tíma hjá á morgun. Í mínum huga var þetta lærdómsstund sem átti bæði að gera mig skarpari á lífið og á sjálfan mig. En í gær skrifaði þessi góði öldungur að hann lokaði sálfræðistofu sinni og tæki ekki fólk í viðtal á meðan vírusváin geisaði. Hann endaði þó vinsamlegan tölvupóstinn á að segja að hann skyldi „nok være der for dig på senere tidspunkt.“ Já, hann skyldi ekki yfirgefa mig, hinn frægi tilvistarsálfræðingur.

Og aflýsingarnar voru fleiri í gær. Ég hafði verið beðinn um að tala á samkomu á Íslandi í lok apríl og ég hafði satt að segja hlakkað svolítið til þess en af því verður þó ekki í bráð. Hve lengi ætli ég verði lokaður inni í þessu landi – eða svo að segja heima hjá mér – ég hitti enga.

Ég var víst búinn að nefna að ég flyt út af vinnustofunni þann 11. maí og undanfarna daga hef ég notað til að segja upp öllu því sem tilheyrir skrifstofu, internet, rafmagn, hiti, öryggiskerfi (sem ég yfirtók, því miður), ruslatunnu (svona er kerfið í DK) … Fyrirtæki gera það sem þau geta til að torvelda manni að segja upp áskriftum … uppsagnir í gegnum tölvupóst eru ekki teknar gildar … maður verður að hringja og svo ýtir maður á 3 „til að segja upp“ á þá fer einhver sjálfvirk keðja í gang þannig að enginn svarar símanum fyrr en eftir meira en klukkutíma. Fyrir mig er þetta töluverður tortúr þar sem ég get ekki einbeitt mér að öðru á meðan ég hlusta á múzak og rödd vélmennis sem segir látlaust „því miður eru allir starfsmenn okkar uppteknir, vinsamlegast bíðið.“

Nú hef ég tvo daga – skilafrestur er á föstudag – til að klára það verkefni sem ég hef unnið að í tæpar tvær vikur. Það verður ágætt að snúa sér að öðru.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.