Til mín kom maður, gráhærður með grátt skegg – þó var hann bara aðeins eldri en ég – og sagðist eiga erindi við mig. Ég bauð honum að sjálfsögðu inn fyrir eftir að hann hafði kynnt sig og við settumst inn í eldhús þar sem hann þáði kaffi, sem ég hafði hellt upp á fyrir hann. Ég drakk líka kaffi sem ég hafði hellt upp á fyrir mig. Og svo beið ég eftir að maðurinn bæri upp erindi sitt. Ég tók eftir að hann hafði vandað sig við fatavalið. Hann var svartklæddur. Skórnir voru támjóir, svartir og glansandi – svolítið úr tísku. Jakkinn var ívið of stór og augljóst að maðurinn var ekki vanur að klæðast svona fínum fötum því það var eins og hann klæjaði inni í fötunum þar sem hann sat á móti mér við eldhúsborðið. Hann spjallaði lengi um arkitektúr hússins míns, gólfefni í eldhúsum og þær betrumbætur sem hann hefði unnið að í sínu eigin húsi. Ég tók þátt í spjallinu en í kollinum á mér ómaði spurningin: Hvað er það sem hann vill mér þessi maður?
Eftir langa mæðu barst spjallið frá innahússarkitektúr og gólfefnum yfir í músik, nánar tiltekið tónlist Bítlana eða réttara sagt mikilvægi Ringo Starr (Richard Starkey) í tónlistarsköpun Bítlana. Mér varð á að segja að John Lennon hefði einhvern tíma sagt að Ringo Starr væri ekki besti trommuleikari Bítlana. Allt í einu varð maðurinn æstur og vildi ólmur sannfæra mig um að Ringo hefði verið stórkostlegur tónlistarmaður, en algerlega vanmetin. Hann fékk mig til að sækja fyrir sig tölvu þar sem hann sýndi brot úr hverju youtube myndbandinu á fætur öðru til að benda mér á hversu snjall og frumlegur trommuleikari Ringo hefði verið. Sennilega hafði maðurinn rétt fyrir sér.
Ég var orðinn frekar undrandi á þessari heimsókn og var farinn að svara manninum í einsatkvæðisorðum á meðan hann malaði. Ég var eiginlega hættur að hlusta á hann en ferðaðist þess í stað í huganum baka til sumarsins 1969, sumarsins þegar ég var í sveit í Skorradal og kom um haustið aftur til borgarinnar með hár niður á herðar. Vinir mínir í hverfinu voru bæði glaðir og hálföfundssjúkir yfir að ég fengi að hafa Bítlahár og byrjuðu að kalla mig Ringo – bæði vegna hársins og ekki síður vegna nefsins – en nafnið festist aldrei við mig.
Loks gafst ég upp og spurði manninn kurteislega: „Jæja, hvert var svo erindið?“
„Já, erindið.“ Hann þagnaði til að safna hinum réttu orðum fram í munninn. „Ég vildi bara kynna þér hið nýja bæjarskipulag í Espergærde og fá þig með okkur í lið til að berjast fyrir fleiri bílastæðum í gamla hluta Espergærde… Eins og þú veist þá er….“
Þetta kom aldeilis flatt upp á mig svo það datt upp úr mér, áður en maðurinn hélt lengra með ræðu sína, án allra hugsana og án ritskoðunar:
„Ekkert í heiminum finnst mér meira óinteressant en bílastæðavandamál. Hefðirðu viljað fá mig til að berjast fyrir upprisu Ringo Starr sem trommuleikara hefði ég algerlega verið með. En ekki barátta fyrir fleiri bílastæðum. Ég nota ekki tíma minn í það, sir. Sorry!“