Já, föstudagur 24. febrúar. Það var einmitt þann 24. febrúar 1989 sem trúarleiðtoginn Ayatollah Khomeini lagði það sem kallast fatwa á Salman Rushdie. Sá sem næði að drepa rithöfundinn fengi dágóða summu frá trúarhöfðingjanum fyrir að þagga niður í hinum synduga blekbera. Ég man þetta svo vel þar sem ég var nýbúinn að stofna mitt litla forlag og íhugaði strax hvort ég ætti að gefa út bók Rushdies, Söngva Satans, bókina sem olli öllu uppnáminu. Vandinn var bara að mér fannst bókin svo drepleiðinleg að ég nennti ekki að gefa hana út þótt ég vissi vel hvað það mundi þýða fyrir hið nýstofnaða forlag. Ég setti mig meira að segja í sambandi við umboðsmann Rushdie og hafði fengið bókina senda þegar ég gerði mér grein fyrir að ég gæti ekki gefið bókina út. Mitt litla forlag gæti ekki verið þekkt fyrir að gefa út svo makalaust leiðinlega bók.
Ég hitti, nokkrum árum eftir útkomu bókarinnar á ensku, norska útgefanda Söngva satans, mikinn ágætis mann. Hann var svo óheppinn að vera skotinn fyrir framan heimili sitt af trúarbróður Khomeinis. Hann lifði árásina, slapp með skrekkinn, eins og það heitir. Í mörg ár lá skrekkurin á honum eins og mara. Gott að ég gaf þessa bók ekki út, ég hefði kannski verið skotinn, eða þurft að lifa í eilífum ótta eins og norski útgefandinn. Þetta er örlagabók.
Ég gaf þó út eina örlagabók: Náin kynni eftir Hanif Kureishi. Ég vissi svo sem ekki fyrr en eftir að ég hafði keypt bókina að allir þeir sem komu nálægt þessari skáldsögu áttu að hafa lent í hjónabandserfileikum. Það gengu sögur, kannski tröllasögur, um þýðendur, prófarkalesara og útgefendur í Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni, Póllandi og víðar sem höfðu lent ægilegum hremmingum með hjónalíf sitt eftir að hafa smitast af ógæfuvírusnum sem átti að fylgja bókinni.
Annars gladdist ég í gær yfir að Guðmundur Andri hefði fengið tilnefningu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir bókina sína um Thor. Það finnst mér góð bók. Ég hafði ætlað mér að senda honum hamingjuóskir en þar sem höfuð mitt er gersamlega á bólakafi náði ég hvorki að klára það né annað. En hér koma hamingjuóskirnar, ég vona að þær nái alla leið til Álftaness.
Hér snjóaði í gær.
