Espergærde. Spjallrýni

Davíð varð að ósk sinni; það snjóar í dag. Hann fór fagnandi út í snjóinn í morgun og hlakkaði til snjóboltastríðsins í frímínútum. Ég ákvað hins vegar að hreyfa mig hvergi og vinna heima. Ég er ekki hinn stóri snjómaður.

Ég byrjaði að lesa smásagnasafn Ragnars Helga Ólafssonar, Handbók um minni og gleymsku í gær og leist bara vel á. (Nú verð ég að passa mig á að segja ekki of margt; það getur verið notað gegn manni.) En ég var að huga á meðan lestrinum stóð að sennilega er það rétt sem ég hafði á tilfinningunni að Ragnar Helgi væri hluti af hinum nýja hóp rithöfunda sem nefndir hafa verið gáfumannaskólinn. Textinn hefur gáfulegt yfirbragð, hugmyndir, í sinni góðu víðu merkingu, í hásæti og hér leikur höfundur sér með afstöðu sögumanns til lesendans, hvort hann er fyrir framan hann eða aftan bæði í tíma og rúmi, hér spilar höfundur líka á skynfæri lesandans en áhersla á slíkar æfingar tilheyra einmitt gáfumannaskólanum í bókmenntum.

Ég sá brot út Kiljunni undir stjórn Egils Helgasonar, mannsins með lyklana að borgarhliði Reykjavíkur,  þar sem tveir gagnrýnendur, þau Þorgeir Tryggvason og Sunna Dís fjölluðu um bók Ragnars Helga. Í mín eyru er þessi hópur kallaður spjallrýnendur sem er ágætisorð. Það er nú ekki annað hægt en að gleðjast yfir að jafnmiklivægur miðill og Sjónvarpið noti góðan útsendingartíma til senda út spjall um bókmenntir sem allir gera haft gagn og gaman að.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.