Venju samkvæmt geri ég lista yfir fólk sem varð á vegi mínum á götum Reykjavíkur. Að þessu sinni var ég ekki eins mikið á þönum um borgina og oft áður.
Kjartan Bjargmundsson, smiðurinn og leikarinn, var sá maður sem ég rakst fyrst á. Rétt stiginn á íslenska fold. Hann var hirðsmiður minn á forlaginu niður á Bræðraborgarstíg og vildi auðvitað vita hvort við værum búnir að selja húsnæðið. Ég gat svarað spurningunni skilmerkilega. Nei. Við erum ekki búnir að selja.
Á sömu götu, Berstaðastræti, mrætti ég Óskari Árna, Reykjavíkurskáldinu, og Áslaugu Agnarsdóttur, þýðandanum þar sem þau voru á göngu um borgina. Skáldið var örugglega að safna í sarpinn. Áslaug rifjaði hins vegar upp að ég hafði komið henni af stað með að þýða úr rússnesku. Ég man vel að ég gekk á eftir henni að fara að þýða. Ég var viss um að hún yrði góður þýðandi, enda nákvæm og samviskusöm. Við rifjuðum líka upp ferð okkar Óskars Árna með stelpurnar okkar, hljóðfæraleikarana, til Keflavíkur þar sem þær áttu að spila í einhverri strengjasveit. Óskar sagði mér að þar hefði ég boðið öllum upp á pizzu á undarlegum pizzastað á götuhorni í Keflavík. Því var ég búinn að gleyma.
Á sömu götu, Berstaðastræti, veifuðum við hvor til annars, Þórir Snær Sigurjónsson, kvikmyndamógúll og ég. Það er alltaf svo bjart yfir Þóri Snæ. Það kann ég vel við.
Að kvöldi föstudags hitti ég Jón Kalman á Kexi þar sem rætt var um skáldskap, bókamessur, fótbolta, ársfund rithöfundasambandsins, gæði hamborgarakjöts, sameiginlega félaga … síðar um kvöldið kom María Karen á leið sinni í leikhús og upplýsti okkur um ferðir sínar um Ísland sama dag.
Í hádegi úti í Norrænahúsi, (Sus þurfti að kíkja inn á gamla vinnustaðinn sinn) hittum við Úlfar Þormóðsson sem fagnaði okkur af alúð. Hann sagði mér frá efasemdum manna um að ég gæti þolað meint ríkidæmi mitt vegna útgáfu á Dan Brown. Ekki veit ég svo sem af hverju fólk hefur áhyggjur af efnahag mínum og afleiðingum hans á hegðun mína.
Á laugardegi hitti ég Palla Vals og Nönnu þar sem rætt var um ketti, hesta, starf þýðandans, starf útgefandans, taktík í baggamon-borðspilinu, sumardvöl á Ítalíu, háttvísi sumra metsöluhöfunda og vandann við að taka ákvarðanir. Og ekki síst snerust umræðurnar um Eyþór Arnalds og stjórnmál í Reykjavík, blandaða byggð á Grandasvæði og flutning olíutanka út á Grundartanga.
Ég tók tvisvar leigubíl þar sem ég þurfti að komast upp á Skemmuveg og leigubílstjórarnir voru óþreytandi að segja mér hver væri stysta leiðin frá miðbæ Reykjavíkur út á Skemmuveg og aðra staði á iðnaðarsvæðinu í Kópavogi. Ég var jafnfram fræddur, þar sem ég sat í framsæti leigubíla, um fjölda ljósa á Bústaðavegi og samstillingu ljósa á Miklubraut.
En það voru ekki fleiri sem ég hitti fyrir utan alla byggingarmennina mína.
Nú er ég kominn á skrifstofuna á lestarstöðinni, og ung poppsöngkona Jorja Smith heldur uppi stuðinu hér ásamt vini sínum rapparanum Stormzy. Ég þekki hana ekki en brátt skipti ég yfir í Waits, Smog, Cave eða Chet.