Erika Mann var elsta dóttir Thomasar Mann, rithöfundarins og Katiu Pringsheim hinnar vellauðugu konu hans. Erika fæddist líka í stormviðri í München í nóvember alveg eins og bróðir hennar Klaus Mann sem fæddist ári síðar. En Erika var stelpa og það olli föður hennar miklum vonbrigðum. Hann hafði óskað þess að fyrsta barn hans yrði drengur. Í bréfi til bróður síns Heinrich Mann skrifar Thomas:
„Þetta er stelpa. Ég viðurkenni, okkar á milli, að það eru mér mikil vonbrigði því ég hafði óskað þess heitt og innilega að eignast son og ég held áfram að vonast eftir syni. … mér finnst eins og að það sé svo miklu meira póesí í því að eignast son. …“
Erika óx úr grasi og varð fljótt þrátt fyrir allt augasteinn föður síns. En hún vann ekki bara hjarta föður síns. Það var eftir að Erika flutti sem ung kona til Berlínar að hún kynntist Annemarie Schwarzenbach, dóttir svissnesks silkiframleiðanda og ríkasta manns Sviss. Annemarie þessi var ljósmyndari og rithöfundur. Hún varð strax gífurlega ástfangin af Eriku (en hjarta hennar tilheyrði Therese Giehse) og gerði margt til að vinna hug og hjarta Eriku en án árangurs. Síðar fór Annemarie að líta á hana sem einskonar móður þótt þær væru nánast jafnaldrar. „Þitt barn, A,“ skrifaði hún undir bréf sín til Eriku.
Báðar voru konurnar vel efnaðar og nutu þess að eiga eigin bíl sem var mjög sjaldgæft á þessum árum. Þær keyrðu hlið við hlið eða hvor á eftir annarri eftir götum Schwabing eða á Kurfürstendamm og þræddu barina, settust á háa stóla við barborð, tóku af sér ökuhanskana og pöntuðu absint. Þær voru stuttklipptar eins og drengir, klæddust karlmannlegum fötum og vöktu hvarvetna athygli. Þær nutu þess að finna hve mjög augu annarra bargesta hvíldu á þeim á meðan þær sötruðu hinn görótta drykk.
Annemarie Scchwarzenbach dó 34 ára gömul eftir langa baráttu við morfínsýki.