London. Sundlaugasmíði

Fyrsti dagur bókamessu að baki. Engin sérstök tíðindi. Hér er hálf tíðindalaust. Í gær komum við ekki í sjálfa messuhöllina í Olympia,  heldur flökkuðum við á milli höfuðstöðva agentanna og forlaganna í London. Það er í raun miklu skemmtilegra að koma á heimavöll forlaganna, inn á skrifstofurnar, en að hitta sömu aðila við lítil borð inni í risasal fullum af fólki.

Dagurinn í dag verður langur. Fyrsti fundur í messuhöllinni er klukkan 09:00 og sá síðasti klukkan 19:00. Hálftíma fundir og ein hálftímapása um tvöleytið. Mig dreymdi í nótt  hinn ljósfælna mann sem við hittum á fundi á morgun. Sá ljósfælni fékk mig í draumnum til að hjálpa sér við að smíða risasundlaug við glæsivillu einhvers staðar uppi í sveit á Spáni.

Ég heyrði í Jóni Kaldal um daginn sem sagði mér með mikilli hrifningu að hann væri að lesa frábæra þýðingu Jóns Halls á bók Kims Leine, Spámennirnir í Botnleysufirði. Nú langar mig að lesa þýðingu Jóns Halls. Ég kíkti á netbókabúð á Íslandi og sá að bókin er ekki fáanleg sem e-bók. Ég verð bara að kaupa kiljuna þegar ég kem til Íslands í apríl.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.