USA, Ashland. Tom Waits

Í marga mánuði byrjaði vinnudagurinn hjá mér á að hlusta á Alice með Tom Waits. Á meðan ég startaði tölvunni hljómaði þessi fíni söngur Waits. Nú mörgum árum seinna hálfvorkenni ég þeim sem voru fórnarlömb þessarar þráhyggju. Lagið Alice var spilað á fullum styrk. Oftast var ég einn á skrifstofu Bjarts og jafnskjótt og tónar Alice svifu í gegnum skrifstofurykið, sveif ég með þessum sömu tónum. Jón Karl og Aðalheiður voru  fastir starfsmenn Bjarts og ég man að stundum sagði ég við Jón Karl, sem var árrisulli en Aðalheiður: „Eigum við að taka smá Alice?“ Hann var alltaf samþykkur því. Og svo hljómaði Alice. Á skrifstofunni sat ég í horni, út við glugga. Andspænis mér sat Aðalheiður en mér á hægri hönd, þó með bakið í mig, sat Jón Karl. Ef bara ég og Aðalheiður vorum á skrifstofunni spilaði ég Alice á lágum styrk án þess að vekja athygli á að ég spilaði lagið í 300 sinn.

Þessi minning kemur til mín nú, því ég íhugaði að hafa uppi á Tom Waits. Músik Tom Waits hefur fylgt mér frá því að ég var í menntaskóla og það er langt síðan, finnst mér. Í meira en 30 ár hef ég hlustað á Waits. Ég veit að hann býr með konu sinni, Kathleen Brennen, í bæ norður af San Francisco. Ég lét það eiga sig. Við keyrðum ekki í gegnum bæ Tom Waits. Heldur miklu lengra norður og nú erum lent langt upp í sveit. Millilending áður en við hertökum Portland, hipsterbæinn. Hér eru geitur, hænur og svín. Og hundar sem gelta í sífellu því þeir finna lyktina af svartabjörnum úti í skóginum sem liggur hér í 100 metra fjarlægð.

Ég hef sagt, og ég endurtek, ef ég verð svo lánsamur að fá að verða gamall, líka ef ég verð gamall og vitlaus, þá vil ég bara fá að hlusta á tónlist. J.S. Bach og Tom Waits.

ps ég er ekki sammála Waits þegar hann segir að fegursta hljóð heims er þegar bacon stiknar á pönnu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.