Espergærde. Hið mikla syndaflóð

Dagur iðrunnar, hugsaði ég þegar ég settist fram á rúmbríkina og klæddi mig í sokkana. Ég hafði sofið til klukkan átta og ég var gersamlega miður mín. Ég fann að ég skammaðist mín þótt ég vissi að það væri fáránlegt. En sama hvað ég reyndi að brosa inn í sálina fann ég að ég var gífurlega óánægður með sjálfan mig.

Allir voru farnir að sinna erindum sínum þegar ég kom niður í eldhús svo ég var einn heima. Ég flýtti mér að hella upp á kaffi, rista brauð og koma mér út að hlaupa mitt iðrunarhlaup. Ég hljóp lengra en venjulega og gerði mínar fínu leikfimiæfingar í kjölfarið með auknum ákafa.

Ég veit ekki hvað varð til þess að ég svaf svona lengi. Ekki fór ég sérstaklega seint að sofa og ég svaf vel (að vísu dreymdi mig að ég væri fastur í Kína) þannig að þar er ekki skýringa á langsvefninum að finna. Kannski er ég bara lagstur í vetrardvala. Fréttin um að Ísland væri komið á rauðan lista hér í Danmörku vegna þess hve útbreiðsla á þessari veiru hefði magnast síðustu vikur gerði mig ægilega vondaufan. Ég hafði reiknað með að komast til Íslands á þriðjudaginn til að fylgja hinni nýju bók eftir – og til þess hlakka ég mjög mikið – en þegar ný sóttstaða Íslands var tilkynnt í gær brá mér töluvert. Ég hafði ekki tekið þetta með inn í reikninginn. Satt að segja hafði mér ekki dottið í hug að staða Íslands yrði gerð svona slæm . En ég er ættaður úr Hergilsey – Hergilseyjarkyni eins og Palli kallar okkur fjölskylduna – og þar var ekki verið að væla og ekki ætla ég mér að leggjast í volæði. Upp með andann. En í dag er samt iðrunardagur yfir aumingjaskapnum að sofa svona lengi.

ps. þótt ég setji inn mynd af sólböðuðum sveitavegi (myndin er frá því í gær) rignir hér ákaft. Hið mikla syndaflóð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.