Kannski gleymdi ég því á árum áður að lífið gengur ekki út á að láta tímann líða hratt. Helst vildi ég að allt þyti áfram. Nú langar mig helst til að stoppa tímann.
Kunningi minn með hundinn og kaffibollann, sem ég mæti oft á götuhornum, var úti að ganga í rigningunni í gær þegar ég var á leið heim úr vinnunni. Hann var auðvitað með stóra hundinn sinn í bandi sem ófús drattaðist á eftir eiganda sínum. Hann (maðurinn ekki hundurinn) fagnaði mér þegar við mættumst því honum þykir gaman að tala við mig. Honum varð litið á hundinn og sagði: „Án brennandi áhuga, eða því sem fólk kallar ástríðu, hefur maður enga orku, og ef maður hefur enga orku gerist ekkert.“ Hann benti á lúpulegan hundinn máli sínu til stuðnings. Hann hefur á réttu að standa. Án brennandi áhuga hefur maður enga krafta.
Félagi minn með hundinn virðist vera farsæll maður, ég veit svo sem ekkert um manninn, við hittumst bara af og til á götuhornum, en hann endurtekur í sífellu að munurinn á farsælu fólki og mjög farsælu fólki eins og hann telur sjálfan sig vera, er að þeir sem eru mjög farsælir segi næstum nei við öllu. „Þess vegna get ég verið að væflast hérna með hundinn á miðjum degi. Ég vanda mig, þegar ég ráðstafa tíma mínum.“
Annars finnst honum skemmtilegast að tala um peninga eins og fleirum. Sérstaklega fljótfengna peninga, peninga sem koma upp í hendurnar á honum án þess að hann hafi svo mikið fyrir því. Þótt hann segi með jöfnu millibili, „maður á ekki alltaf að vera að tala og hugsa um peninga,“ þá gleymir hann sér alltaf og talið berst á ný að peningum. Og þá lifnar hann við, bandar með höndunum í allar áttir í frásögnum sínum. Ég held að hann hafi brennandi áhuga á peningum og þaðan fái hann orkuna.
ps ég mætti í jóga í morgun. Það er nú meiri þjáningin. Ég verð að vera heiðarlegur og viðurkenna að orkuna fæ ég ekki í jóga.