Espergærde. Undir skítahlassi

Í gær var haft samband við mig frá Íslandi. Mínu gamla heimalandi. Á hinum enda línunnar var maður sem ég þekki ekki. Hann kynnti sig kurteislega, en ég náði ekki nafninu og nennti ekki að fá hann til að endurtaka kynninguna. Hann sagðist vera að leita að einhverjum til að skrifa um íslenskar bókmenntir, „nú fer jólabókaflóðið jú í hönd,“ eins og hann orðaði hugsanir sínar, fyrir blað eða netmiðil sem hann vann hjá. Ég tók manninum auðvitað vel en sagðist ekki vera rétti maðurinn til að skrifa um íslenskar bókmenntir. Það væru aðrir betri til þess en ég.

Í rauninni hef ég áhuga á að skrifa um þær íslensku bækur sem ég les, en bara hér á kaktusnum, sem lið í minni litlu dagbók sem enginn skoðar. Ef ég fjallaði um íslenskar nýútkomnar bækur í opinberum miðli mundi ég eignast fleiri óvini en þann eina sem ég á. Það er ekki markmið mitt að eignast fjandmenn. Mér er bara ómögulegt að segja eitthvað fallegt um það sem mér finnst ekki gott. Ég man þegar ég skrifaði (það var hér á kaktusnum) um annars ágæta bók Braga Ólafssonar sem kom út fyrir síðustu jól – nú man ég ekki einu sinni hvað hún heitir – fékk ég á baukinn frá höfundi. Ég veit ekki hvernig höfundinum tókst að smygla sér inn og laumast til að lesa dagbók mína. Þótt ég hafi ekki beðið skaða af því skítahlassi sem ég fékk yfir mig veitti það mér enga ánægju; hvorki að særa hið viðkvæma skáld eða verða undir úrgangshrúgunni.

Ungi maðurinn í símanum var þó óður og uppvægur að fá mig til að skrifa. „Það yrði bara ein bók á viku.“ Ég þakkaði viðmælandanum traustið og sagði með ákveðinni röddu að ég tæki ekki að mér að skrifa um bækur á hans fína miðli (sem ég hef aldrei heyrt um fyrr). Ég hefði ekki áhuga. Það sljákkaði svolítið í fjölmiðlamannium. Með hálfum huga reyndi hann í síðasta sinn að fá mig til að skipta um skoðun og svo kvöddumst við.

Í gær las ég norska bók eftir Kagge. Það fannst mér ekki skemmtileg lesning. Allt of hátíðlegur og húmorslaus texti fyrir minn smekk (ég bendi á að ég bæti við „fyrir minn smekk“ aftan við setninguna). Virkaði meira að segja yfirborðslegur. (Ég vona að Kagge læðist ekki til að lesa þetta.)

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.