Reykjavík. Skortur á vöntun

Það er kyrrð hér á Hagamelnum. Styrmir sefur.

Ég fór í langan göngutúr eftir hádegi með Styrmi í barnavagninum niður á Ægisíðu. Þegar ég gekk yfir umferðareyjurnar fékk ég tilfinningu fyrir Íslandi og Reykjavík. Hvergi í heiminum er grasið eins og grasið á umferðareyju í desember í Reykjavík. Ég var svo hugfanginn að ég varð að staldra við til að reyna að greina hvað gerði áferð grassins svo íslenska.

En það var ekki bara grasið, heldur líka hvernig vindurinn blés á mig, birtan og lyktin. Hér á ég heima, hér þekki ég heiminn, hugsaði ég. Ég þekki vindinn og ljósið, ég þekki sögu þessarar umferðareyju. Hér kann ég að dansa.

Í morgun, eftir að hafa borðað morgunmat með Söndru og fjölskyldu hennar á Kaffi Vest, settumst við Jón Karl niður og fengum okkur kaffi og ostabrauð, líka á Kaffi Vest. Samtalið sem ég átti með Jóni Karli mundi ég aldrei geta átt með neinum sem ég þekki í Danmörku og ég sakna þess. Vanalega vantar mig ekkert, ég hef allt við höndina, allt er innan seilingar. Það er skortur á vöntun, (hugtak frá Ragnari Helga). En slík samtöl vantar mig.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.