Þegar Murakami sérhannaði gestarúm fyrir Carver

Ég var að klára að lesa bók Benjamins Labatut sem ber titilinn Þegar við hættum að skilja heiminn. Benjamin skrifar á spænsku, enda eru foreldrar hans frá Chile og sjálfur býr hann nú í föðurlandi sínu þótt hann hann hafi fæðst (1980) og alist upp í Rotterdam. En í upphafssenu bókarinnar sem ég var að klára að lesa er sagt frá því að læknarnir í Nürnberg sem skoðuðu Hermann Göring áður en réttarhöldin hófust yfir honum hefðu tekið eftir því að bæði á höndum hans og fótum voru áberandi rauðir flekkir. Læknarnir ályktuðu að þetta húðmein væri afleiðing af ofneyslu verkjalyfsins dihydrokodein. Göbbel gleypti nefnilega meira en 100 töflur af lyfinu á hverjum degi. Læknarnir tölu rétt að hreinsa Göbbels undan eituráhrifum lyfjanna. En það var ekki létt.

Þegar Göbbels var handtekinn á flótta af bandamönnum við lok stríðsins hafði hann meðferðist þunga ferðatösku. Í töskunni var ekki bara naglalakkið sem hann notaði þegar hann dulbjó sig sem Nero keisara heldur líka meira en 20.000 skammtar af þessu mikla uppáhalds vímuefni hans, dihydrokodein.

Af einhverjum undalegum ástæðum vakti þessi lýsing Benjamins Labatut á Göbbels og flótta hans með ferðatöskuna á verkefni sem Haruki Murakami og kona hans tóku sér fyrir hendur eftir heimkomu þeirra  úr ferðalagi til Bandaríkjanna þar sem meginerindið var að heimsækja Raymond Carver.

Ég rifja þetta upp vegna þess að ég tók einu sinni að mér að vera leiðsögumaður Murakamihjónanna um Reykjavík þegar þau voru hér í tilefni af Bókmenntahátíðinni í Reykjavík árið 2003. Ég  keyrði og Haruki Murakmai sat við hliðina á mér. Yoku Murakami sat þögul í aftursætinu.  Japanski rithöfundurinn var  rólegur maður, fámáll en áberandi kurteis. Ég man að klæðaburður hans vakti sérstaka athygli mína. Hann var klæddur í óvenjufínan tvíhepptan, bláleitan jakka með gullhnöppum. Haruki Murakami var ekki blaðrari, hann var heldur ekki óþægilega þögull. Yfir honum ára rósemdar sem smitaðist út í bílinn. Eftir því sem við vorum lengur saman færðist Murakami í aukana og varð sífellt ræðnari. Hann sagði mér meðal annars frá því í bíltúrunum að hann hefði í mjög langan tíma verið með Raymond Carver á heilanum. Hann hafði bara lesið tvær af sögum hans, (mig minnir að það hafi verið sögurnar Where I’m Calling From og So Much Water So Close to Home) þegar hann varð gífurlega upptekinn af bandaríska höfundinum og var sannfærður um að hann væri ritsnillingur.

Eftir þessi fyrstu kynni af skáldskap Raymond Carver las Murakami allt sem hann komst yfir og fór að þýða sögur höfundarins á japönsku. Allar þær Carver-sögur sem Murakami fann snaraði hann yfir á japönsku. Carver átti hug hans allan og á endanum gerðist hann svo djarfur að setja sig í sambandi við smásagnahöfundinn til að spyrja hvort þeir gætu hist. Carver tók vel í að hitta japanska þýðanda sinn og Murakami pantaði því flug til New York fyrir sig og Yoko konu sína. Þetta var sumarið 1984 og Haruki Murakami var þá 35 ára. Þetta var í fyrsta sinn sem hann kom til Bandaríkjanna. Ferðina ákvað hann að nota í tvennt; að fara til Princeton því þar hafði Scott Fitzgerald gengið í skóla og hitta Carver á heimili hans í Washington.

Carver tók vel á móti þeim hjónum og snerist samtalið þeirra í heimsókninni víst aðallega um sölu bóka Carvers í Japan og hvað væri hægt að gera til að auka vinsældir þeirra. (Murakami glotti þegar hann sagði þetta.) Murakami hafði þá sjálfur fengið nokkar skáldsögur útgefnar sem þó höfðu ekki verið þýddar á ensku. Murakami upplýsti Carver aldrei um að hann væri sjálfur rithöfundur. „Ég hefði líklega átt að segja honum það,“ sagði Murakami.

Í stuttu máli þá fór vel á með Murakamihjónunum og Raymond Carver. Svo vel að Carver skrifaði ljóð eftir fund þeirra sem hann tileinkaði Murakami. Carver lofaði meira að segja að heimsækja þau hjónin í  Japan. Og þar með hófst þetta verkefni Murakami sem ég fór að hugsa um eftir að ég las lýsingar Benjamins Labatut á Göbbels, naglalakkinu og ferðatöskunni sem var full af verkjalyfjum. Verkefni Murakamihjónanna var þó allt annars eðlis og ég skil satt að segja ekki sjálfur tenginguna þarna á milli.

Murakami sagði mér að eftir heimkomu þeirra hjóna hefði það sérstaklega verið kona hans sem hefði gert margvíslegar ráðstafanir til að hýsa bandaríska smásagnahöfundinn. Á heimili þeirra væri stærð rúmanna miðuð við japanska líkamsbyggingu en Carver var óvenju hávaxinn og mikill að vexti að öllu leyti. Rúm sem Carver hefði getað legið þægilega í  var mjög vandfundið í Japan á þessum árum. Eftir langa leit ákvað Yoko Murakami að lokum haft samband við fyrirtæki sem hannaði og framleiddi rúm og fékk fyrirtækið til að smíða sérstaklega gott rúm fyrir Carver. Framleiðandinn hafði fengið beiðni um að afhenda eins fljótt og kostur væri rúm sem var nógu langt til að það gæti passað fyrir þann stóra mann, Carver, svo hann gæti sofið vel í heimsókninni hjá þeim hjónum. Þegar rúmið var komið á sinn stað í gestaherbergi Murakamihjónanna keyptu þau nýja sæng, stóran kodda og ný rúmföt. Gestaherbergið á heimili hjónanna var helgað heimsókn Carvers. Árin liðu og Carver lét bíða eftir sér. Hann lést árið 1989, fimm árum eftir heimsókn Murakamis, aðeins fimmtíu ára. Banamein hans var lungnakrabbamein. Raymond Carver fór því í gröfina án þess að hvílast í sérútbúna rúminu á heimili Murakami og án þess að gruna að Murakami var líka rithöfundur.

dagbók

3 athugasemdir við “Þegar Murakami sérhannaði gestarúm fyrir Carver

    • Kæra Þórunn Hrefna. Þakka þér innilega fyrir þessa fallegu kveðju. Sennilega getur þú ímyndað þér hvað svona hlý orð geta glatt. Ég var að minnsta kosti mjög glaður. Kveðjan er falleg og ég er glaður.

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.