Í gær skrópaði ég, mætti ekki í vinnuna; ekki vegna þess að ég nennti ekki að vinna, þvert á móti finnst mér skemmtilegt að puða, en ég fann bara að ég hafði ekki hausinn með mér. Ég settist því bara við skrifborðið heima og í stað þess að halda áfram að skrifa þá sögu sem ég er með í pípunum tók ég fram eina af þeim þýðingum sem ég þarf að skila af mér á næsta ári.
En í morgun var ekkert sem gat stoppað mig. Ég arkaði af stað niður á skrifstofu strax í dagrenningu. Í mig hafði safnast yfirkraftur, svo mikill að ég átti erfitt með að hemja sjálfan mig þegar ég gekk af stað. Ég fann að vísu þegar ég strunsaði niður Søbækvej hvað taskan mín var full af dóti án þess að ég vissi hvað ég bar eiginlega með mér í þessari svörtu leðurtösku sem ég læt hanga á öxlinni á mér. Ég ákvað að ég skyldi taka til í töskunni þegar ég kæmi í vinnuna.

(Tölvan og iPadinn minn eru ekki með á myndinni. Heldur ekki tyggjóið sem ég borðaði.)
Listi yfir dót í töskunni minni.
1. Tölvan. Apple iBook sem fylgir mér hvert sem ég fer. Hún er sennilega orðin sex ára og er orðin hæggeng eins og gamall, feitur hundur. Hún er farin að láta mig bíða eftir sér þegar ég skrifa á hana; skemmtir mér með snúningi hins litríka hjóli dauðans.
2. Bókin En tur i skoven, Bill Bryson. Þessa bók hef ég oft meðferðist því mig langar svolítið að skrifa eins bækur og Bill Bryson. Bækur sem eru einskonar lýsing á afmörkuðu, spennandi og óvenjulegu verkefni, frá upphafi til loka. Eins og þessi bók er lýsing á gönguferð Bills og vinar hans Stephen eftir hinum 3300 km langa stíg (The Appalachian Trail) sem liggur meðfram austurströnd Bandaríkjanna. Bill Bryson er fyndinn og skemmtilegur en um leið áhugaverður. Ég er að leita að nógu áhugaverðu verkefni sem getur borið slíka frásögn. Bók Huldars Breiðfjörðs, Góðir Íslendingar er dæmi um vel heppnaða bók í anda Bills.
3. Bókin hans Dóra DNA, Kokkáll sem ég er að lesa núna þessa dagana liggur í töskunni og ég á bara 12 blaðsíður eftir. Ég hafði hugsað mér að klára hana í dag, fá mér sæti á fína hægindastólnum við gluggann á skrifstofunni, hella upp á tvöfaldan espresso og lesa þessar síðustu síður bókarinnar. Framan af var ég mjög ánægður með bókina. Mér fannst kraftur í textanum; óvenjulega mikill kraftur. Mér fannst höfundur líka frumlegur í meðferð textans og mér þótti hann frekar fyndinn. En í seinni hluta bókarinnar gerist eitthvað sem erfitt er að festa hönd á. Það vantar sömu frásagnargleði og í fyrri hluta bókarinnar. Maður missir pínulítið áhugann á aðalpersónunni, kærustunni og stöðu mála. En ég klára í dag.
4. Ræða Olgu Tokarczuk sem hún ætlar að halda á móttökuathöfninni fyrir Nóbelsverðlaunin. En það var einmitt þessi pólski rithöfundur sem var valinn Nóbelsverðlaunahafi í október og í dag tekur hún við heiðursverðlaununum. Af því tilefni heldur hún ræðu og þessa ræðu prentaði ég út í gærkvöldi og í dag ætla ég að lesa ræðuna. Ég byrjaði að vísu í morgun yfir morgunmatnum – hafragrautnum mínum – og svo í kaffipásu í dag hafði ég hugsað mér að draga fram þessi útprentuðu blöð í töskunni minni og lesa afganginn. Þetta er löng ræða, heilar 25 A4-blaðsíður. Ég get ímyndað mér að hún taki um það bil einn klukkutíma í flutningi.
5. Í töskunni minni eru líka 5 gleraugu. Það er kannski óþarfi að hafa svona mörg gleraugu meðferðis. Satt að segja vissi ég ekki að ég ætti allan þennan fjölda fyrr en ég tók upp úr töskunni. Ástæða þess að ég flyt nærri því hálfa tylft gleraugna með mér er hinn svakalegi ótti sem ég ber í brjósti eftir að ég varð sjóndapur, að geta ekki lesið. Ég passa þess vegna alltaf upp á að setja gleraugu í töskuna áður en ég held af stað út úr húsi.
6. Annar grunnótti sem ég þjáist af er óttinn við að hafa ekki skriffæri. Þess vegna safnast saman pennar í töskuna mína. Pennarnir lágu á botni hliðartöskunnar, flestir ættaðir frá hótelum og veitingastöðum sem ég hef heimsótt og tekið þá bíræfnu ákvörðun að stela pennunum þegar ég hef handfjatlað þá. Á einum stendur Trattoria Borgo, þeim ítalska veitingastað man ég vel eftir, en INNSIDE by Melina? Hvað er það?
6. Ég hef meðferðis nafnspjald sem á stendur STOP TALKING. Nafnspjaldið er prentað á vandaðan pappír. Ég man vel að ég fékk það afhent við hálfgerða athöfn niður á ströndum Frakklands. Maðurinn sem valdi sérstaklega þetta kort fyrir mig (að mig minnir af því að ég geng með hendur í vösum) sagðist vera listamaður og kortið var hluti af listaverkinu hans.
7. Mastercard. Ég á það til að gleyma og týna. Einu sinni þegar ég var einn á ferðalagi datt mér í hug að taka eitt af greiðslukortunum mínum úr veskinu mínu, þar sem ég geymi bæði peninga og VISA/MASTER-kortin mín, og flytja yfir í töskuna mína svo allir þeir miðlar sem ég hef til að borga fyrir vörur séu ekki á einum og sama staðnum. Ef ég týni veskinu þá hef ég alltaf Masterkortið. Stundum er ég ekki alvitlaus.
8. Vegabréfið mitt. Það á ekki að vera þarna í hliðarhólfi töskunnar minnar. En þar sem ég er oft á ferðalögum virðist ég ekki hafa haft rænu á að setja vegabréfið mitt aftur á sinn stað (inn í skáp heima hjá mér).
9. Blaðabunki með einni af þýðingum mínum. Ég gríp í þýðingar þegar ég hef tóma stund aflögu og er ekki í stuði til annars. Þess vegna hef ég eina þýðingu alltaf meðferðis.
10. Hleðslusnúrur fyrir iPhone, iPad og önnur hleðslusnúra fyrir Garmi úrið mitt. Ef ég er á ferðinni finnst mér betra að geta sett straum á þessi raftæki sem ég burðast með alla daga: iPad til að lesa e-bækur, iPhone m.a. til að skrifa og taka á móti skilaboðum, Garmin úr til að mæla lífsmörk. Mín eigin.
11. Lyklar. Þetta eru aukalyklar sem ég hef af húsinu í Hvalfirði. Ef ég skyldi gleyma lyklum hef ég alltaf aukalykla meðferðis. Ég sé núna að ég geri ansi margar varúðarráðstafanir. Það kemur mér á óvart.
11. Kvittanir. Þessar kvittanir, sem staðfesta peninganotkun í síðustu viku, eiga að fara í bókhaldsmöppuna hérna á skrifstofunni.
12. Rauða minnisbókin. Þessa minnisbók hef ég nærri því alltaf á mér. Og ef ég blaða í henni skil ég stundum ekki hvað ég hef verið að punkta hjá mér; orð og tölur í einum hrærigraut á einni opnu eru óskiljanlegar upplýsingar þegar frá líður. Svo les ég minnispunkta sem opna gáttir í heilanum á mér, eitthvað sem gott er að muna.
13. Ég fann líka gamalt tyggjó. Ég setti það í munninn á mér áður en ég tók myndina þess vegna er tyggjóið ekki á ljósmyndinni hér að ofan. Mér kom á óvart að það var kirsuberjabragð af því. Ég veit ekki hvaðan það kemur því ég kaupi aldrei tyggjó.