París. Ávísun á velgengni

Dagurinn í gær þróaðist öðruvísi en ég hafði reiknað með. Allt í einu, það er að segja fyrirvaralaust, myndaðist töluverður biðtími þar sem ég gat ekki gert það sem ég hafði ætlað mér. Sem betur fer hafði ég iPadinn minn með mér og þar sem ég hef nýlokið við skáldsögu Auðar Ólafsdóttur um fegurðardrottninguna sem vildi vera skáld, þurfti ég að finna nýja bók til að lesa. Helst hefði ég kosið að lesa Ritgerðina hans Eiríks Guðmundssonar en hana hafði ég ekki við höndina og því valdi ég að lesa bók Ragnars Helga Ólafssonar. Ég hafði líka möguleika á að grípa í nýja bók Guðrún Evu Mínervudóttur, Ástin Texas, sem ég er spenntur fyrir.

En ég las í gær helminginn af bókinni hans Ragnars Helga, Bókasafn föður míns, og það er góður tónn í bókinni hans. Mér varð auðvitað tíðhugsað til bókaútgefandans og bókasafnarans Ólafs Ragnarssonar, pabba Ragnars Helga. Sem betur fer kynntist ég manninum nokkrum árum fyrir andlát hans. Hann kom mér verulega á óvart. Fáa menn hef ég hitt sem eru jafn örlátir á uppörvun, hvatningu og falleg orð og Ólafur. Ég hugsa oft – í tengslum við kynni mín af Ólafi – um það hvað snobbið í listaelítu Reykjavíkur er illgjarnt. Ég heyrði sjaldan neitt gott um Ólaf þegar ég var að byrja í bókaútgáfu. Ólafur og Vaka-Helgafell voru fulltrúar hins vonda í forlagsheiminum; peningagræðgi og skortur á menningarást. Oft var mér sögð sagan af því þegar ljóðskáld átti að hafa komið á fund Ólafs á skrifstofu hans í Síðumúla. Skrifstofa útgefandans var á annarri hæð og út um glugga skrifstofunnar blasti við bílastæði forlagsins. Ljóðskáldið mun hafa lagt fram handrit að nýju ljóðasafni sem Ólafur vildi ekki gefa út og mun hafa átt að hafna ljóðahandritinu með því að benda út á bílastæðið þar sem nýr, svartur Mercedes Benz bíll forleggjarans stóð, gljáandi og voldugur. „Ég gæti alveg eins gefið þér bílinn minn eins og að gefa út ljóðabókina. Það mundi kosta mig jafnmikið. Ég held að ég haldi bílnum mínum og þú haldir ljóðahandritinu þínu.“ Þetta er auðvitað bara tilbúningur.

ps Mér þótti gaman að sjá að Michael Houellebecq var aftur kominn til starfa á litla kaffihúsinu mínu í morgun. Hann sér um að hella upp á kaffi; barista, heitir það víst í dag. Hann hefur líka tekið að sér að velja tónlistina sem er flutt hér af vinyl-plötum staðarins. Hann hefur sinn stíl hann Houellebecq, ég þekki ekki tónlistana sem hann býður upp á, en sennilega eru flytjendurnir þekktir, franskir pönkarar. Í mínum litlu eyrum hljómar tónlistin ekki sérlega kaffihúsavinsamleg.

Pps. Ég fékk þá hugmynd við lestur Bókasafn föður míns að sennilega væri það ávísun á velgengni ef maður stofnaði fyrirtæki sem framleiddi skort. Í þeim hluta heimsins sem ég bý í er alger vöntun á skorti. Það yrði gífurleg eftirspurn eftir skorti sem aldrei yrði fullnægt. Til dæmis nú fyrir jólin væri hægt að gefa fólki sem skortir ekki neitt, tvær eða fleiri einingar af skorti í jólagjöf. Það er hægt að selja skort dýrum dómum; framboð lítið og eftirspurn mikil, skortur er nánast ófáanlegur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.