Spurningaregn að kvöldi

Í gærkvöldi eftir allt tölvuvesenið á mér barst mér tölvupóstur á nýja tölvupóstfangið mitt (snar@kaktusinn.is). Þetta var bréf frá gömlum skólafélaga sem ég hef ekki hitt í mörg ár en hann notaði hvatningu í dagbókarfærslu gærdagsins til að senda tölvupóst á snar@kaktusinn.is til að endurnýja kynni okkar. Hann leyfði sér í gamni (hann þekkti bókaáhuga minn) að leggja fram nokkrar spurningar sem hann hvatti mig til að svara á kaktusnum. Spurningar voru:
1. Hvaða bók/bækur hvetur þú alla sem þú þekkir til að lesa?
2. Hvaða bók ertu að lesa um þessar mundir?
3. Er ein bók sem hefur heftur haft djúptæk áhrif á líf þitt.

  1. Hvaða bók/bækur hvetur þú alla sem þú þekkir til að lesa? Það breytist með árunum og það er háð því við hvern ég tala. Nú, þessa dagana, hvet ég alla til að lesa bók Judith Hermann sem heitir á dönsku Hjem (Daheim á þýsku). Ég er enn að reyna að skilja hvers vegna þessi bók heillaði mig svo mjög. Einu sinni þekkti ég höfundinn sem kom nokkrum sinnum til Íslands í tengslum við útgáfu bóka hennar á íslensku. En nú svona löngu síðar efast ég um að hún mundi muna eftir mér ef ég rækist á hana. Í ágústlok sá ég Judith tala um bókina Hjem á sviði Louisiana bókmenntahátíðarinnar. Judith var góð á sviðinu, meira en góð, hún var framúrskarandi. Hún var auðmjúk, hógvær, snjöll, áhugaverð og yfir henni, eins og sjálfri sögunni Hjem, er einhver melakólía sem er svo falleg. Nútíminn hefur ekki pláss fyrir melankólíu. Melankólína tilheyrir ekki lengur tímanum.
  2. Hvaða bók ertu að lesa um þessar mundir? Ég er að lesa margar bækur í einu. Þannig les ég. Ég hoppa á milli bóka, les nokkra kafla og legg svo bókina frá mér og byrja á næstu. Sumar bækur klára ég aldrei en ég les mismikið í mörgum bókum. Oftast velti ég endinum ekki fyrir mér og mér er alveg sama þótt ég viti ekki hvernig bók endar. Ég les nær aldrei bækur oftar en einu sinni. Fyrir nokkru hitti ég mann sem las gífurlega mikið. Hann las tugi og hundruð bóka á ári. Pabbi hans hafði náð háum aldri varð rúmlega níræður en hann fékk 10 bækur að láni í hverri viku í bókabílnum alveg fram á síðasta dag. Þessi maður, sem átti þennan lesóða öldung fyrir föður, ætlaði að feta í fótspor pabba síns. Hann sagði mér að hann hefði lesið allar bækur John le Carré en le Carré skrifaði 23 bækur. Þessar 23 bækur hefur hann allar lesið að minnsta kosti fimm sinnum og sumar tíu sinnum. Alltaf þegar hann langar að lesa eitthvað verulega gott tekur hann eina af bókum  la Carré fram og les hana enn einu sinni, hverja einustu setningu, oft aftur og aftur og hægt. En, já, hvað les ég þessa dagana. Ég var að kaupa nýja bók Houellebecq, anéantir, eða „að gera að engu“. Þetta er mikill doðrantur upp á 750 blaðsíður. Það eru ekki allir sammála mér um að Houellebecq sé skemmtilegur og áhugaverður höfundur. Ég kann svo vel við kaldhæðni hans og hans óréttu skoðanir. Houellebecq hefur lýst því yfir að þetta sé sennilega síðasta bók sem hann skrifi. Mér þætti leiðinlegt ef það reynist rétt. Annars er ég enn að lesa Játningar Roussoeus. Sú bók er líka löng en skemmtileg. Ég bíð eftir að komast til Íslands til að geta byrjað að sanka að mér íslenskum bókum. Ég hlakka til að lesa nýja bók Braga Ólafssonar sem ég veit ekki hvað heitir, ég hlakka til að lesa Útsýni, nýja bók Guðrúnar Evu, ég hlakka til að lesa Gula kafbátinn hans Jóns Kalmans sem Effi sagði mér að væri blanda áf Ýmislegt um risafurur … og Snarkinu. Það þætti mér góð blanda. Ég hlakka til að lesa bók Siggu Hagalín með þann frábæra titil Hamingja þessa heims. Ég hlakka til að lesa barnabók Andísar Þórarinsdóttur, Kollhnís sem ég hef einstaklega góða tilfinningu fyrir. Án efa eru miklu fleiri íslenskar bækur sem ég ætla að lesa en þetta eru þær sem komu í fljótu bragði upp í hugann.
  3. Er ein bók sem hefur heftur haft djúptæk áhrif á líf þitt. Ein bók? Já. En ekki bara ein heldur tvær og þrjár og fjórar … Sú fyrsta sem kemur í hugann er Ástkona franska lautinantsins eftir John Fowles. Ég man að þegar ég var kominn á blaðsíðu 60 eða þar um bil var ég um það bil við að leggja bókina frá mér. Ég komst bara ekki í samband við bókina en svo gerðist eitthvað. Eins og ég hefði verið laminn í hausinn með hamri og allt í einu tók þessi bók mig slíkum heljartökum að ég gat hvorki hætt að lesa hana og ég gat ekki hætt að hugsa um hana. Bók Ishiguros Slepptu mér aldrei hafði gífurleg áhrif á mig. Ég var í tilfinningalegu uppnámi lengi eftir að ég kláraði bókina. Ég var gersamlega miður mín. Flestar bækur Ishiguros hafa veitt mér ómælda gleði. En talandi um melankólíu: Ég las bók Astrid Lindgren, Elsku Míó minn, örugglega 10 eða 20 sinnum fyrir börnin mín og í hvert skipti þurfti ég að berjast við tárin og röddina í mér því mér fannst sagan svo óskaplega sorglega og falleg en ég vildi ekki að börnin mín sæju hve lesturinn var mér erfiður. Ég vildi ekki liggja við hlið litlu barnanna minna og vola rétt fyrir svefninn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.