Fyrr í haust kynntist ég spænskum hjónum sem búa í húsi inni í skógi og upp í fjöllunum norður af Barcelona. Þetta eru sérstaklega hjartahlýjar manneskjur og áhugaverðar. Það sem ég dáðist einna helst að í fari þessa fólks var hinn logandi hugsjónaeldur sem knúði hjarta þeirra áfram. Þau vildu koma að gagni og leggja sitt að mörkum til að gera heiminn betri. Það eru margir einstaklingar knúnir áfram af þessari sömu þrá að betrumbæta heiminn. En þessi spænsku hjón gerðu það sem ekki allir eru tilbúnir til – að fórna einhverju mikilvægu til að koma nær markmiði hugsjóna sinna. Spánverjar, eins og aðrir Suður-Evrópubúar þurfa að glíma við þann vanda sem hlýst af því að til landsins streymir fólk í leit að betri lífskjörum. Oftast er þetta fátækt fólk sem flýr kröpp kjör heimalands síns og dreymir um eitthvað betra og þá er Evrópa oftast draumastaðurinn. Flestir sem koma eru sendir aftur til baka því þjóðfélagið telur sig ekki hafa not fyrir þetta fólk.
Í stað þess að sitja heima í stofu og býsnast fyrir óréttlæti heimsins á sínum uppáhalds samfélagsmiðli taka spænsku hjónin sem ég kynntist að sér flóttafólk og ráða þau í „vinnu“ á landareign sinni og tryggja þar með fólkinu landvistarleyfi. En þetta þýðir að þau verða að borga þessu fólki laun, þannig að fórnin fyrir málstaðinn er raunveruleg. Það þýðir ekkert hálfkák. Ég hef aldrei haft trú á fólki sem hrópar hástöfum og óskar eftir betrumbótum en er ekki sjálft tilbúið að fórna neinu, taka á sig þjáningar eða gefa frá sér verðmæti svo um muni. Hjá sumum ná hinar háværu kröfur um betri heim ekki dýpra en til að vekja athygli á sjálfu sér og eigin góðmennsku sem þó nær í rauninni ekki lengra en niður á lyklaborð facebooktölvunnar. Þessi hugsjón verður því ekkert annað en barátta þess fyrir betri heimi fyrir sjálft sig; barátta fyrir eigin fullnægingu.
Hvað um það hér sit ég, nýkominn inn eftir langhlaup eftir Strandvejen. Í gær setti ég hraðamet á skógarstígnum en í dag voru enginn hraðamet sett. Nokkur mótvindur var bæði þegar ég hljóp norður Strandvejen og líka suður Strandvejen. Á meðan ég hljóp mína tíu kílómetra yljaði ég mér við þær góðu fréttir frá því í gær að þýðingarréttur að spennusögu minni, Eitt satt orð, hefði verið seldur til Ítalíu, til forlagsins Carbonio Ediorore, sem ég þekki ekki en mér er sagt að það sé sérstakleg cool forlag. Mér finnst þetta algjört ævintýri að koma bráðum út á Ítalíu. … og auðvitað er það líka ævintýri að koma út í Englandi og Noregi.