Espergærde. Að ýta á P

Ég heyri aftur og aftur frásagnir um að Auður Jónsdóttir, rithöfundurinn, hafi sagt skilið við forlagið sitt Forlagið og gangi til liðs við sinn gamla ritstjóra, Palla Vals hjá Bjarti. Ég heyri líka að hún hafi kvartað undan samskiptum sínum við Forlagið til Rithöfundasambandsins. Hún er ekki alveg ánægð. Ég veit svo sem ekkert um þetta annað en ég er spurður æ ofan í æ hvað ég viti. Og fátt veit ég um þetta mál og ekki hver umkvörtunarefnin eru.

Í tilefni af þessu fór ég að hugsa um samskipti forlags og höfunda. Það er skrýtinn dans og ég geri mér sífellt betur grein fyrir hversu vel hægt er að dansa og hversu illa og stirðlega maður getur hreyft sig í dansinum, hve vel hægt er að sinna hlutverki forleggjara og hversu lélegur maður getur verið í því starfi. Ef ég gæti skrúfað tímann 20 ár til baka mundi ég reka Bjart á annan hátt en ég gerði á sínum tíma. Þótt ég hafði lagt mig fram um að vera góður forleggjari veit ég að ég náði ekki alltaf að uppfylla væntingar höfunda minna. Sumir urðu fúlir út í mig. En góður og fallegur dans krefst þess þó að báðir dansfélagarnir dansi vel.

Mikilvægast í þessum samskiptum er að samstilla væntingar höfunda og forleggjara. Kannski er það þetta samtal þar sem menn segja frá hvað menn hugsa, óska og dreyma sem vantar?

PS.
Hann: Fyrirgefðu, Snæi minn, geturðu hjálpað mér? Ég er nefnilega alveg búinn að gleyma hvernig maður prentar út.
Ég: Ég kem. Sennilega þó ekki fyrr en rétt eftir fimm.
Hann: Á ég ekki að ýta á “P”? Ég þori ekki að prófa.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.