Espergærde. Að leggja lykkju á leið sína

Svo er haustið komið, síðdegi og kvöld. Smám saman lýkur vinnudegi og ég hef gert mitt besta og stundum aðeins betur. Og svo sofnar maður, dreymir sína drauma; suma órólega aðra sæta. Þegar ég vaknaði í morgun var allt kyrrt. Sólin, drifvot, rétt byrjuð að gægjast yfir hafflötin.

Í dag er sunnudagur. Hlaupin að baki og ég var óvenju léttur í spori. Kannski vegna þess hve ég var kátur yfir tveimur óvæntum skilaboðum – sem sátu enn í kroppnum á mér – frá tveimur ókunnugum mæðrum sem höfðu lesið nýju bókina mína (og líka þá fyrri) fyrir börnin sín. Þær vildu (hvor í sínu lagi) – með fallegum orðum – þakka fyrir skemmtunina. Ég varð svo glaður að ég sofnaði sæll með þessar kveðjur í huganum í gærkvöldi. Það þarf ekki mikið til að hressa langleggjaðan Íslending. Óskaplega er sumt fólk hugulsamt að hafa fyrir því að sáldra gleði á leið sinni og taka jafnvel á sig krók til þess.

Í gær valdi ég að ganga nýja leið því mig langaði að hitta hestana sem eru komnir á tún í hinum enda bæjarins. Þetta eru þrír svartir hestar sem hafa fremur lítið tún til afnota í skógarjaðrinum. Ég hafði ákveðið að hlusta á hljóðbók á leið minni til hestanna. En ég gleymdi mér svo yfir þessum lestri að ég gekk nærri því 20000 skref, framhjá hestunum, meðfram járnbrautateinunum og langt inn í skóg þar sem ég vissi aldrei í hvaða átt ég gekk. Ég bara gekk og gekk og smám saman fór að dimma og sólin hvarf bak við trén. Ég ákvað því, þegar ég áttaði mig á hve skuggsýnt var orðið, að ganga á sjávarlyktina og stefna niður í fjöru og þaðan heim. Það var viturlegt því ég var kominn vestur fyrir Helsingør og því var heimleiðin löng. Í dag ætla ég aftur að hitta hestana.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.