Espergærde. Lögregluaðgerðir

Rétt kominn frá höfuðstaðnum þar sem ég átti fund með listamanni sem býr í Flórens á Ítalíu og var í heimsókn í Danmörku. Við höfðum mælt okkur mót inni í Kaupmannahöfn og þar hittumst við líka og sátum saman í nokkra klukkutíma og töluðum um lífið og listina (eða hvað heitir það sem maður talar nú um þegar maður hittir fólk sem telur sig hafa eitthvað merkilegt að segja. Getur maður ekki bara kallað það að tala um lífið og listina? Daginn og veginn?). Það var hin besta skemmtun að spjalla við manninn sem var hláturmildur, fróður og hafði fína frásagnargáfu.

En ég hlýt að hafa flýtt mér of mikið heim því ég var stoppaður af löggunni og fékk háa sekt og “klip i kørekortet” eins og það er kallað þegar maður brýtur of alvarlega af sér á vegum úti. Ég var á 69 km hraða þar sem maður má bara keyra 50 km. Ég var ekki ánægður með það.

Ég er þess vegna í frekar vondu skapi, þannig. Af því tilefni varð mér aftur hugsað til samtals sem ég átti við mann á horni Ægisgötu og Túngötu um vetur. Það eru liðin meira en 15 ár frá því samtalið fór fram. Ég sé enn fyrir mér hinn flissandi og vandræðalega mann sem ég talaði við. Hann var með ullarhúfu á höfðinu. Ég sé enn fyrir mér snjóinn á hjólateinum reiðhjóls míns sem ég virti fyrir mér á meðan ég reyndi að skilja merkin sem maðurinn sendi mér undir samtalinu. Og það situr enn í mér, samtalið, svona hlutir sitja augljóslega lengi í mér. Ha?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.