Espergærde. Samtal við konu.

Hér er ég enn, enn í Danmörku og næ ekki til Íslands fyrir jól; íslenskt jólahald verður að bíða betri tíma. Það er danskur laugardagur og yfir okkur, sem enn erum hér undir dönskum himni, hanga grá ský. Þau hafa víst ekki annað hlutverk en að skyggja á sólina.

Á meðan ég vandræðast hér í Danmörku er önnur mannvera að vesenast í París, Frakklandi og örugglega margir fleiri sem telja sig vera að snúast í kringum sjálft sig í vandræðagangi annars staðar í heiminum. En ég ætla að segja frá þessari frönsku konu sem er hálförg, hún heitir Josée Comte-Béalu. Síminn hennar hefur hringt í allan morgun, líka í gær, og á hinum enda línunnar eru blaðamenn sem vilja fá viðtal við hana. Hún neitar. Hún neitar og hún neitar. „Þetta eru hrægammar. Blaðamenn eru hrægammar. Þær nærast á dauða, óhamingju, ógæfu og óánægju. Þetta eru þeirra guðir. Hinn þríeini Guð blaðamanna; ógæfa, óhamingja og óánægja. Þeir telja sig vera að bæta samfélagið, ég gef lítið fyrir það. Þeir nærast á dauða, því meiri hörmungar því betra. Þeir búa til óánægju til að fá næringu. Ég hef ekkert álit á þeim.“

Og það er rétt hjá Josée að í París kraumi óánægjan; óánægjuorkan knýr París þessa daga, óánægðir launþegar mótmæla, óánægðir lestarfarþegar bíða eftir að hið lamaða lestarkerfi vakni til lífsins og óánægð ríkisstjórn neitar að semja við óánægð launþegasamtök um að hætta við breytingar á eftirlaunakerfi.

Josée Comte-Béalu hefur fengið nóg og hefur bæði ákveðið og tilkynnt að hún muni loka bókabúðinni sinni Le Pont traversé þann 31. desember. Bókabúðin er fornfræg. Stofnuð af manni hennar skáldinu Marcel Béalu sem dó árið 1993. Eftir dauða hans hefur Josée séð um bókabúðina ein. Óánægja með að bókabúðinni verði lokað er einmitt ástæða ásóknar blaðamannanna í viðtal við þessa öldruðu konu.

Það er laugardagsmorgunn. Það er óvenju rólegt í bókabúðinni og Josée notar tækifærið til að setja verðmiða á nokkrar bækur og svo lítur hún upp. „Þessi skyndilegi áhugi blaðamanna á gamalli kerlingu og gamalli bókabúð er bara af því ég er búin að gefast upp og ætla að loka. Ef einhver dugur væri í þessum blaðasnápum ættu þeir heldur að tala við þau sem eru að byrja, þau sem eru að opna bókabúð.“ Hún heldur áfram að tutla með verðmiðana sína. En lítur síðan enn á ný upp til að monta sig. „François Mitterand var fastakúnni hér, hann kom oft með dóttur sinni.“

Bókabúðin Le Pont traversé er við enda Luxembourg-garðsins og mun aðalástæða lokunarinnar, að sögn Josée, vera að húsaleigan hefur hækkað svo á síðustu árum. „Ég hef ekki fundið neinn sem vill taka við þessari bókabúð. Ég get ekki borgað með rekstrinum, ég á ekki peninga til þess. Ég ætlaði aldrei að verða bóksali. Ég stundaði nám í bókmenntum og árið 1973 þegar ég var að skrifa ritgerð um verk Marel Béalu fékk ég bréf frá honum þar sem hann spurði mig hvort ég vildi reka bókabúð með honum. Hann hafði þá rekið þessa bókabúð lengi. Í þrjá mánuði hugaði ég mig um; milli jóla og páska,“ sagði Josée og hló. „Á endanum sagði ég já og flutti frá fæðingarbæ mínum, Pau þar sem ég bjó og til stórborgarinnar til að reka bókabúð. Síðan hef ég unnuð fullt starf hér, sex daga vikunnar og án Marcel frá árinu 1993. Það var árið sem hann dó. Það voru margir karlar, bókasafnarar, sem trúðu ekki að ég gæti rekið þessa bókabúð. En þetta hef ég samt gert. Mér finnst ungt fólk sem fær áhuga á bókmenntum, sérstaklega ljóðum, verða óskaplega ástriðufullt í ljóðaáhuga sínum. Mér finnst ekki að við eigum að tala um ljóð … það finnst mér ekki … þau eru svo innileg. Maður á ekki að tala um þau, bara skynja hvað gerist innra með manni.“

Margir nágrannar hennar eru óánægðir með lokunina því í stað bókabúðarinnar kemur enn ein tískuvöruverslunin. Hið gamla bókmenntahverfi Parísar, þar sem áður voru bókabúðir og kaffistéttir á hverri götuhorni er nú orðið miðstöð fatabúða, aljóðlegra tískumerkja, sem hafa söluútibú sín þar sem áður voru bókabúðir og kaffisala.

ps. Ég hafði undirbúið dvöl mína fjarri skrifstofunni yfir jólin þar sem ég var á leið til Íslands og sett þessa fínu útstillingu í skrifstofugluggann. JULEBØGERNE. (sjá mynd). Fyrst ég fer ekki til Íslands hef ég hugsað mér að betrumbæta gluggaskreytinguna. Mér áskotnaðist nefnilega fjórir tindátar; hinir fjórir bókelsku verðir og líka lítið ljós sem ég hafði hugsað mér að stilla upp við hlið bókanna fjögurra.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.