„Sæll á sunnudegi!“ hófst bréf sem ég fékk í gær frá gömlum félaga mínum. Í bréfinu furðaði hann sig á hversu hrifinn ég er af Önnu Karenínu. Sú bók þótti honum of melódramatísk. Sennilega er ég gefinn fyrir melódrama því ég skemmti mér ákaflega vel við lesturinn. Þessi sami bréfritari hafði lesið Stríð og frið og það þótti honum stórkostleg bók en það er einmitt sú skáldsaga sem er næst á dagskrá hjá mér á eftir Önnu. Hún er einungis fáanleg í lúxusútgáfu hér í Danmörku, eins og Gyldendal kallar tveggja binda útgáfu verksins, þar sem mjög vandað er til bókbandsins. Ekki finnst mér bókband mikilvægt, heldur hefði ég viljað að meira væri lagt í umbrot bókarinnar. En textinn er ansi þéttur og letrið smátt.

Sennilega fer ég að fordæmi þessa góða manns, bréfritarans, og les allan Dostojevskí í einum spreng þegar ég hef lokið við Tolstoj.
Ég hef um helgina íhugað að taka að mér þýðingarverkefni sem mér var boðið í síðustu viku – þýðing á miklum metsölukrimma sem er víst ekki jafn langur og þeir sem ég hef þýtt undanfarið – en eftir nokkra umhugsun held ég að ég láti það eiga sig. Mér finnst ég hafa svo mörg járn í eldinum að slíkt express-verkefni mundi raska öllum mínum fyrirætlunum.
Annars dreymdi mig að Halldór Guðmundsson, fyrrum forleggjari hjá Eddu og gamlan keppinaut minn í íslenska forlagsbransanum, hefði boðið mér starf við að ritstýra einhverju tímariti hjá Háskóla Íslands. Þegar ég sagði Sus frá draumnum í morgun hló hún og sagði að eins gott að ég hefði ekki tekið þetta starf að mér í raunheimum því það mundi alls ekki henta mér að starfa við akademískan aga, ég væri ekki maður smáatriðanna. Og það er alveg rétt að ég er ekki nákvæmnismaður og hefði vel getað tekið upp á því að spinna upp einhverja vitleysu þegar akademískri nákvæmni er krafist.
ps Davíð ákvað í gær að ganga 50 km með tveimur vinum sínum. Göngutúr frá Amager og alla leið hingað til Norður-Sjálands. Gangan hófst klukkan 09:00 og þegar klukkan var 17:30 hringdi Davíð til mín og spurði hvort ég nennti að ganga með honum síðasta spölinn, 7 km, því félagar hans hefðu gefist upp og fengið foreldra sína til að sækja sig.
Það var þreyttur og beygður ungur maður sem ég hitti við Nivå. Gangan hafði verið töluvert erfiðari en hann hafði reiknað með og hann gat ekki hugsað sér að ganga síðustu sjö kílómetrana einn í myrkrinu. En við komumst á leiðarenda.